25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Magnús Guðmundsson:

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði í ræðu sinni, að jeg hefði ekki tekið tillit til þess, að jeg hefði tekið hjer um bil hæsta fiskverð til samanburðar. Þetta er gersamlega rangt, og furðar mig á, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skuli segja þetta, því að á móti þessu setti jeg hækkunina á verðlagsskránni allar götur síðan 1881 til þessa dags. Hann viðurkendi annars, að reikningur minn væri rjettur, enda tók jeg líka með lausafjárskatt af bátum og skipum. Vel má vera, að meira komi í sköttum á nef hjá sjávarútvegsmönnum en landbúnaðarmönnum, en það sannar ekki annað en að sjávarútvegurinn borgar sig betur en landbúnaður, en aftur á móti ekkert um það, hvor atvinnuvegurinn borgar hlutfallslega meira eftir arðinum. Annars get jeg ekki sjeð, hvað brýr og vegir koma þessu máli við. En háttv. þm V.-Ísf. (M. Ó.) ætti að fara í bankana og athuga, hvorn atvinnuveginn þeir styrkja meir, sjávarútveginn eða landbúnaðinn.