23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Stefán Stefánsson:

Það er sjerstaklega ein fjárveiting, sem jeg er hæstv. stjórn þakklátur fyrir að hafa tekið upp í fjárlögin. Það er fjárveitingin til brúar á Eyjafjarðará. Það eru nú mörg ár síðan þess var óskað, og loks er það komið svo langt, að stjórnin hefir tekið fjárveitinguna upp í frv. sitt. Jafnvel þótt þessi fjárveiting sje veitt með nokkru skilyrði, að verkið verði því að eins unnið, að efni til þess sje ekki ofdýrt, þá vona jeg, að það ákvæði verði ekki misbrúkað, og er það þá í alla staði eðlilegt, eins og ástandið er nú. Meðan jafnerfitt er með aðdrætti og kaup á efni eins og nú er, kemur auðvitað ekki til mála að ráðast í svo stór fyrirtæki. Jeg vil líka taka það fram, að mjer líkar vel tillaga fjárveitinganefndar um það að veita fje til að undirbúa brúarbyggingu á Jökulsá á Sólheimasandi. Þessar 2 brýr hafa lengi elt ólar hvor við aðra, og vona jeg, að það verði nú í síðasta sinni, og að rekspölur komist á byggingu þeirra beggja.

brtt., sem jeg ætlaði sjerstaklega að tala um, er á þgskj. 569 og er um framlag til Öxnadalsvegar. Jeg veit ekki, hvort deildarmenn hafa tekið eftir því, að í núgildandi fjárlögum voru veittar 3000 kr. hvort árið, og er nú unnið af kappi að lagningu þessa vegar. Þar sem þetta stóð í fjárlögunum núna, þá bjóst jeg við, að stjórnin mundi láta það standa áfram, en það var nú ekki því að heilsa. Þegar jeg sá, að stjórnin hafði slept fjárveitingunni, sneri jeg mjer til fjárveitinganefndar, en hún var líka ófáanleg til að taka hana upp. Jeg verð þó að líta svo á, að þetta sje ein af sjálfsögðustu fjárveitingunum til vegagerða. Þarna hagar svo til, að fyrir nokkrum árum var byrjað á vegi frá Akureyri út yfir Moldhaugaháls og inn allan Öxnadal. Nú er vegurinn kominn út yfir hálsinn og inn á Þelamörkina miðja, hálfa leið inn að Bægisá. Nú er því ekki eftir nema örfáir km. til þess, að 2 hreppar geti notað vagna og kerrur til aðdrátta heim til sín. (E. A.: Eru vagnarnir til?). Vagnarnir eru til, að minsta kosti á Akureyri. Það er því sjáanlegur bagi, að verkinu skuli ekki verða haldið áfram. Það verða mikil vonbrigði fyrir þá, sem hlut eiga að máli, ef veginum verður ekki haldið áfram. Honum hefir að vísu ekki stöðugt verið haldið áfram. En úr því að hann komst inn í fjárlögin síðast, þá er eðlilegt, að menn vonist eftir, að ekki verði hætt við hann strax aftur. Þessi vegur kom til tals á þingmálafundum í vor, og var það eindregin ósk allra, að verkinu yrði nú haldið áfram, enda talið mjög líklegt, að svo yrði. Öll tæki eru nú fyrir hendi, því að þar er verið að vinna í sumar. Jeg skal ekki segja, hvort þessar 6000 kr. nægja til að ljúka við veginn, en vona þó, að komist yrði yfir mestu torfærurnar á næsta fjárhagstímabili. Jeg reið þennan veg, er jeg fór að heiman til þings. Varð jeg þá að fara yfir grösug engi, eftir troðningum og yfir kíladrög, sem sum voru á miðjar síður. Þegar svona stutt er eftir, þá er nauðsynlegt að hafa af herslumuninn. Þar sem vegurinn á að liggja eru engar torfærur. Hann á ekki að liggja um engin, sem jeg mintist á áðan, heldur uppi undir fjalli, og virðist þar gott vegarstæði, svo að vegurinn ætti ekki að verða tilfinnanlega dýr.

Þá hefir líka verið bent á það, að heppilegt væri að geta sem víðast veitt mönnum atvinnu á næstu árum, ef dýrtíðin helst. Eyjafjörður er engin undantekning með þetta. Margir mundu verða þakklátir fyrir að fá vinnu við þennan veg á vorin og haustin, sem þurfa að vinna sjer til bjargar.

Dálítið finst mjer hjáleitt, að nefndin skuli bæta 2000 kr. við þær 8000 kr, sem stjórnin áætlaði til Langadalsvegar. Öxnadalsveginn nota 2 hreppar, en hve margir nota Langadalsveginn ? Jeg hygg, að þeir sjeu ekki svo margir. Torfærur eru ekki meiri á þeirri leið en þessari, og báðir eru vegirnir þjóðbraut. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sjái ofsjónum yfir fjenu til Langadalsvegarins, en mjer finst háttv. fjárveitinganefnd hafa Öxnadalsveginn að olnbogabarni, en hossa hinum.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessa brtt. okkar. Við eigum fleiri brtt. við þennan kafla, en háttv. samþingism. minn (E. Árna.) gerir grein fyrir þeim, enda er hann aðalflutningsmaður þeirra.