28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Ólafsson:

Jeg vil ekki láta þetta mál ganga gegnum umræðuna án þess að víkja að því nokkrum orðum, því að frá mínu sjónarmiði er það jafnvarhugavert og áður.

Jeg skal geta þess nú, af því að það var ekki nefnt við 1. umr., að framleiðsla á einu skpd. af fiski kostar 60 kr., en meðalverð á hverju skpd. er 100 kr. Það, sem af gengur, eru 40 kr. Af þeim á að gjalda af skipinu, veiðarfærum o. fl. Saltið eitt kostar nærri 50 kr. í skpd. Það sjá því allir, hvaða fjarstæða væri að hækka gjald á sjávarafurðum. Jeg vona því, að menn láti frv. ekki ganga lengra en það er komið.