29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

172. mál, markalög

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það hefir nú verið ráðist svo óþyrmilega á þetta frv., að maður skyldi ætla, að í því væri ekki nokkur heil brú.

En hvað sem því líður, þá hygg jeg, að hjer sje um nytsamt mál að ræða, sem þó síðar nái fram að ganga. — Það skal jeg að vísu játa, að orðalagi frv. kann að vera í ýmsu ábótavant, enda var það sjerstaklega það, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að fetta fingur út í. (E. A.: Jeg talaði um stefnu frv.). Að vísu mintist hv. þm. á stefnuna, en aðallega var það þó orðalagið, sem hann fjölyrti um, og „lagasíteringamar“. En, eins og gefur að skilja, er hægur vandi að lagfæra þessi missmíði. Báðir þeir háttv. þm., sem talað hafa, (E. A. og Þorl. J.) hafa mælt mjög á móti frumvarpinu, en hvorugur þeirra hefir þó fundið hvöt hjá sjer til að koma með neitt betra í staðinn, sem þá rjeði bót á þeirri óreiðu og ólagi, sem er á markamálinu, því að þetta þarf að laga, á því er enginn efi, og hvers vegna mundi einmitt það fjelag, sem lætur sig mestu máli skifta öll landbúnaðarmál, vera að mælast til, að í þessu máli sje borið fram lagafrv. hjer á þingi, nema þess vegna, að það telur nauðsyn á því, að um þetta verði sett föst ákvæði, — og þó að jeg telji hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) sæmilegan mann í alla staði, þá verð jeg þó að meta meira umsögn þessa fjelags um þetta heldur en hans. Jeg tel vafalaust, að meira kveði að misdrætti, sem stafar af sannmörkum hjer á landi, en hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) vill halda fram. Þá var hann að tala um, að meiri tekjur yrðu að þessu fyrir landssjóð en nefndin gerði ráð fyrir, eða alt að 40000 kr., vegna brennimarkanna, sem nefndin slepti vegna þess, að hún vildi ekki gera ofmikið úr tekjuhlið málsins. Hann taldi, að hjer væri um skatt á markaeigendur að ræða, en það er misskilningur. Markaeigendur auka eign sína; markið fær á sig friðhelgi, og getur gengið kaupum og sölum, fyrir meira en skrásetning marksins og brennimarksins kostar; annars má ekki búast við miklu af þingmanninum (Þorl. J.), þar sem hann kvaðst ekki skilja, hvað meint væri með málinu. — Sem dæmi upp á, hvernig tekið hefir verið móti þessu frv. hjer í hv. deild, mætti nefna spurningu hv. 2. þm. Árn. (E. A.) um það, hvað eigi að marka, og annað fleira því líkt. Landbúnaðarnefnd hafði ekki búist við, að svo barnalegar spurningar yrðu bornar fram hjer. En það sýnir best þann hug, sem fylgir málum hjá þeim, sem hafa komið með þær. — Viðvíkjandi því, hvaða „búfje“ eigi að marka, þá fæ jeg ekki sjeð, að vafi geti verið um það, og býst ekki við, að jeg þurfi að fræða prófessorinn um þýðingu á jafnalmennu orði. Eins og menn vita hafa hross miklu minna samgöngusvæði en sauðfje, og eru því sjerstök ákvæði um mörk á þeim. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að finna að orðalagi 3. gr., þar sem sagt er, að mörk skuli færð. — Jeg veit ekki betur en að það sje algengt mál t. d. að segja „að færa reikninga“. (E. A.: Það er ekki íslenska). Það gildir einu; sama má segja um fjölmörg önnur orð, sem komin eru inn í íslenska tungu, að þau eru úr erlendum tungum tekin, enda tíðkast þetta án þess að fundið sje að. En þetta má auðvitað lagfæra, svo að hv. þm. (E. A.) hefði getað sparað sjer þessar hártoganir. Jeg ætla ekki að eyða fleirum orðum að þessu, en mjer er talsvert umhugað um þetta mál, og það sem vakti fyrir nefndinni, var að fá það hjer til umræðu, en ekki hitt, að því væri til lykla ráðið á þessu þingi. Að vísu væri æskilegt, að málið fengi að ganga til hv. Ed., en það sýnist mjer ekki muni eiga fyrir því að liggja.

Nefndin býst við, að 2500 kr. verði oflítið. En sú upphæð mundi fást af lögskráningu markanna, eða því sem næst, þar sem öll mörk landsins eru um 23471. Verður það því sýnilega hverfandi, sem geldst í landssjóð, og í byrjun sjálfsagt nokkur útgjöld, en jeg vil segja: „Til mikils skal mikið vinna“. Jeg álít þetta mál svo merkilegt og svo mikla þörf að koma því í lag, að rjett sje að kosta einhverju til þess.

Jeg býst við, að ýmislegt af því, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fann frv. til foráttu, sje rjett, og jeg tel mjög líklegt, að ef málinu verður lengra lífs auðið, muni nefndin gjarnan vilja eiga von á aðstoð háttv. 2. þm Árn. (E. A.) um lagaatriði og „citöt“. Hann talaði um flutning markanna. Já, þegar maðurinn flytur, flytur hann auðvitað markið með, í hvaða umbúðum sem það er. (B. J.: Er nokkur munur á að „færa“ og „flytja“?). Getur verið talsverður.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) taldi málið ómerkilegt. Því hefi jeg áður svarað. Jeg tel málið merkilegt og vel þess vert, að því sje gaumur gefinn.