26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. meiri hl. (Magnús Torfason):

Eins og nefndarálitið ber með sjer hefir nefndin, sem um málið fjallaði, klofnað. Meiri hlutinn leggur til, að frumvarpið verði samþykt, en minni hlutinn vill ekki samþykkja það að svo stöddu, sakir þess, að meðmæli sýslunefndar með sameiningunni vanti. Þessari mótbáru tel jeg rækilega svarað í nefndaráliti meiri hlutans, og þarf því eigi að fara um hana fleirum orðum að þessu sinni.

Meiri hlutinn leggur til, að 3. gr. falli niður. Hún var að eins sett í frv. til varúðar, en hennar þurfti ekki með, með því að hún var sjálfsögð að lögum. Öll nefndin var sammála um, að þessi grein væri óþörf, og að það nægði að geta þess í framsögunni, að sú regla, sem þar væri tekin fram, ætli að gilda.

Jeg finn ekki ástæðu til að rekja málið nánar við þessa umræðu. En jeg vil þó minnast á eitt sjerstakt atriði, sem olli því, að Ísafjarðarkaupstaður sóttist eftir Eyrarhreppi. Svo er sem sje mál með vexti, að landkostir eru mjög litlir á Ísafirði. En bænum er þó nauðsyn á, að hafa næga mjólk. Á því er þó mikill brestur. Bærinn verður þess vegna að hafa frjálsar hendur um næga aukningu á mjólkinni. Og þó er það eitt ekki nóg. Hann verður líka að hafa tök á að geta sjeð fyrir því, að mjólkin verði sæmilega góð til nautnar. En kaupstaðurinn hefir engin umráð þessa sem stendur. Umdæmi bæjarins nær ekki til mjólkurframleiðendanna. Vjer getum að eins sett reglur um meðferð á mjólkinni í sjálfum kaupstaðnum. Þessir annmarkar skaða að vísu ekki mjög þar, sem mjólkin er nóg, en þeir eru afarbagalegir þeim, sem litla mjólk hafa. Nú orðið neita bændur að flytja mjólkina til bæjarins og segja: „Viljið þið ekki gera svo vel að sækja hana til okkar“. Undir þetta verðum vjer að beygja oss, hvernig sem frá mjólkinni er gengið. Og vjer getum ekkert eftirlit haft með hreinlæti á mjólkinni.

Eitt er það, sem mjög hefir loðað við Ísafjarðarkaupstað. En það er barnadauði. Hann hefir verið hreint og beint afskaplegur. Reyndar hefir dregið töluvert úr honum nú á síðari árum, fyrir góðar og gegnar ráðstafanir landlæknis. En hann er samt enn þá meiri á Ísafirði en víðast hvar annarsstaðar. Og því meiri hörgull sem verður á mjólkinni, því meiri verður barnadauðinn. En mjólkurskorturinn verður ekki bættur á annan hátt en með sameiningu Eyrarhrepps og kaupstaðarins.

Það má ganga að því vísu, að Ísafjarðarkaupstaður nái miklum þroska eftir ófriðinn, og því meiri verður mjólkurþörfin.

Jeg skal ekki færa fleiri ástæður, máli mínu til sönnunar, að þessu sinni, en geymi mjer það, ef síðar skyldi verða þörf. Þó get jeg ekki stilt mig um, að benda hv. deild á það, að Ísafjarðarkaupstaður á kröfu til að fá uppbót á því, sem við hann hefir verið misgert.

Fyrir fám árum voru tvær kirkjujarðir seldar frá honum, gegn einróma mótmælum bæjarfjelagsins. önnur þeirra var ágætlega fallin til kúabús. Þetta var að vísu ekki þinginu að kenna, heldur þáverandi stjórn. Þessar jarðir mundi bærinn hafa getað notfært sjer, ef þær hefðu ekki verið seldar. En úr því að þær hafa gengið bænum úr greipum, þá eru ekki önnur ráð til þess að ná þeim aftur en að bærinn nái hreppnum, sem þær eru í, undir sitt umdæmi.

Að lokum skal jeg geta þess, að jeg er því samþykkur, að málið verði ekki afgreitt í Nd., fyr en fulltrúi sýslunnar hefir tekið sæti á þingi.