26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Guðjón Guðlaugsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) tók það rjettilega fram, að þingið væri ekki bundið við umsögn sýslunefndarinnar um málið. En úr því að málið var borið undir sýslunefndina, þá er sjálfsagt að bíða eftir svari hennar. Hætt við, að tafsamt verði að ráða þannig vöxnu máli til lykta, þar er um fjárskifti er að ræða milli hreppsins og sýslunnar.

Það er augljóst, að Norður-Ísafjarðarsýsla tapar miklum tekjum við skiftinguna. Hún missir sýslugjöld, öll gjöld hreppsins til almennra þarfa sýslufjelagsins. Til þess að ráða þessu máli til lykta þarf því umhugsun og er nauðsynlegt, að það sje borið undir alla hlutaðeigendur til íhugunar, en það eru einmitt allir hreppar sýslunnar, því að tekjur og gjöld sýslufjelagsins koma hverjum einstökum hreppi við.

Ein af ástæðum háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) var harla lítilfjörleg, og veit jeg ekki, á hverju hann byggir hana. Hann var að gera greinarmun á 3 og 3. Kvað þau 3 atkv., sem greidd voru með sameiningunni, vega meira en hin 3, sem á móti henni voru, og sá hreppsnefndarmaður, sem hafði ekki kjark til að greiða atkv., hafi heldur stutt þann málstað með því að þegja. Þetta er mjer óskiljanlegur hugsunargangur. Það er eins og einhver dularfull fyrirbrigði hafi haft áhrif á hv. þm. (K.-D.). 3 atkv. á móti 3 finst mjer jafnt og maður, sem hvorki segir já nje nei, segir jafnmikið með og móti, segir alls ekki neitt.

Háttv. þm. (K. D.) talar um fordæmi það, er gefið var þegar Hafnarfjörður fjekk kaupstaðarrjettindi. Það dæmi er alls ekki samsvarandi máli því, er nú ræðir um. Það er eðlilegt, að stór bær, sem myndast hefir innan sýslufjelags, sje tekinn út úr því, þegar gildar ástæður eru til þess. Hafnarfjörður þurfti að gera margt sem bær; hans áhugamál falla ekki saman við áhugamál sýslunnar. Honum ríður ekki á að gera sýsluvegi, heldur götur innan bæjarins, höfn og koma á raflýsingu. Var þess vegna ekki rjett að halda honum í sýslufjelaginu.

Öðru máli er að gegna um Keflavík. Jeg er ekki kunnugur staðháttum þar syðra, og veit ekki, hvort nokkur óánægja var þar með sameininguna. En eitt skil jeg ekki, hvernig Keflavík og Njarðvík hafa komist með þessu út úr Gullbringu- og Kjósarsýslu. Mjer er ekki kunnugt um, að Keflavík sje orðin sjerstakt sýslufjelag. Mjer þætti gaman að heyra, hvað bæjarfógetinn í Keflavík hjeti.

Háttv. þingm. Ísaf. (M. T.) tók í sama streng um það, að ekki þyrfti meðmæla sýslunefndar. Það er að vísu rjett, en það þyrfti að gefa henni tíma til að segja já eða nei, þar sem álits hennar var leitað.

Hv. þm. (M. T.) þótti undarlegt, að jeg, sem er norðan af Ströndum, skyldi beita mjer á móti þessu máli. (M. T.: Á þann hátt, sem háttv. þingm. hefir gert), Jeg er talsvert kunnugur á Ísafirði, jafnvel kunnugri þar en sumstaðar á Ströndum. Þar að auki er jeg landskjörinn þingmaður, og kjósendur inni við Djúpið eru fullkomlega eins mínir kjósendur og Strandamenn, og jeg engu síður þingmaður þeirra en hinna. Jeg er því mótfallinn, að hallað sje á veikari hlutaðeiganda, eins og hreppsfjelag gagnvart sýslufjelagi og sýslufjelag gagnvart sterku bæjarfjelagi.

Jeg vona, að enginn hafi heyrt mig segja neitt til vansa hinum látna þingmanni (Sk. Th.), sem minst hefir verið á. Ekki er það til vansa, að hann var á móti frv., því að hann var frjáls sinna skoðana, sem aðrir. En það væri honum eigi til sæmdar, ef satt væri, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að hann hafi sagst kvíða fyrir því, að málið kæmi fyrir neðri deild, þar eð það væri svo mikið þrifamál.

Skil eigi, að hann hefði kviðið fyrir því, ef þetta væri reglulega gott frv. En hann var gersamlega á móti frv., kveið alls ekki fyrir því og kallaði málið alls ekki neitt þrifamál.