06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

73. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Mál þetta er ljóst og þarf lítillar skýringar við. Það er eitt af mörgum samskonar málum, sem lögð hafa verið fyrir þingið um undanfarin ár. Hafa þau verið sprottin af þörf þjóðarinnar á betri læknaskipun. Það er síður en svo, að nefndin vilji neita þessari þörf, eða nauðsyn þess, sem þetta frv. fer fram á, að breytt verði læknishjeraðaskipun í Snæfellsnessýslu og Hnappadals.

En þar sem brýn þörf virðist vera á því, að lögin um skipun læknishjeraða verði bráðlega endurskoðuð, og þar sem hv. Nd. hefir haft með höndum samskonar mál, og ekki sjeð sjer fært að útkljá það að þessu sinni, þá hefir nefndin þó leyft sjer að leggja það til, að frv. þetta gangi ekki lengra að þessu sinni, en að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Jeg get lýst yfir því, að þótt þessi rökstudda dagskrá sje stíluð í nefndarálitinu, þá mun nefndin ekkert hafa á móti því, að hún verði öðruvísi orðuð, ef hv. flm. (H. St.) óskar þess.

Að öðru leyti hygg jeg, að hv. flm. (H. St.) muni sætta sig við þessi afdrif málsins.