27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer skilst, að frv. hafi ekki gengið til nefndar.

Jeg vildi vekja athygli háttv. deildar á því, að í þessu frv. felst dálítil stefnubreyting frá leið, sem áður hefir verið farin. Hingað til hefir landssjóður fylgt þeirri stefnu að koma kirkjunum af sjer. Hjer er farið í töluvert aðra átt. Að vísu óttast jeg ekki, að hjer sje nein hætta á ferðum. En jeg tel rjettara, að frv. sje athugað af nefnd. Ef á að tryggja fjeð, mætti gera það á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv., t. d. með því móti, að sjerstök ábyrgð kæmi frá söfnuðunum, er fá lán. Jeg skal samt ekki segja neitt um það, hversu frumvarpið er heppilegt. En þegar um það er að ræða, að landssjóður taki á sig ótakmarkaða ábyrgð, tel jeg rjettara að athuga slíka ráðstöfun gaumgæfilega. Venjulega hefir ábyrgðin verið bundin við einhverja ákveðna fjárhæð, t. d. 15, 20 til 30 þúsundir. Mín tillaga er þess vegna sú, að málið verði athugað í nefnd, ef það hefir ekki verið gert enn þá.