27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Forsætisráðherra J. M.):

Jeg talaði ekkert um aðskilnað ríkis og kirkju, heldur sagði jeg, að landssjóður hefði reynt að koma af sjer kirkjunum. Það hefir verið föst regla. (E. P.: Ekki þjóðkirkjunni í Reykjavík). Hann hefir reynt það, en ekki tekist. Þess vegna virðist mjer dálítið vikið frá þessari reglu í frumvarpinu. Þar með vil jeg þó ekki segja, að ekki megi samþykkja frumvarpið. En jeg tel sjálfsagt að athuga það í nefnd. Hugsast gæti, að einhver önnur trygging kæmi til mála. Yfirleitt virðist mjer viðsjárvert að láta landssjóð ábyrgjast meira fje en nauðsynleg þörf er á. Því að þegar landssjóður fær lán. eru reiknaðar ábyrgðir hans. Jeg játa að vísu, að hjer er um lítilræði að tefla. En þrátt fyrir það virðist mjer rjettara að vísa frv. í nefnd. Og jeg leyfi mjer að stinga upp á fjárveitinganefnd.