27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil að eins drepa á það, að hæstv. forsætisráðherra bar frv. saman við þá stefnu, að landssjóður hafi reynt að koma kirkjunum af sjer. En þetta tvent er óskylds efnis. Þó að landssjóður vilji ekki burðast með fjárhag einstakra kirkna, þá er hjer öðru máli að gegna. Kirkjunum er af löggjafarvaldinu gert að skyldu að leggja fje sitt í þennan sjóð, og virðist þá eðlilegast, að löggjafarvaldið sjái einnig um, að fjeð sje þar trygt. Frv. miðar að því að gera umráðamenn kirknanna öruggari með fjárhag kirkjunnar.

En að öðru leyti er þessi ábyrgð ekki svo ægileg, því að sjóðurinn verður vitanlega hjer eftir sem hingað til undir umsjá biskups, og hann mun gæta allrar varúðar, að því er til gæslunnar kemur, eins og hann hefir gert að undanförnu. Hjer er því varla um neina hættu að ræða.

Um nefndina er það að segja, að mjer finst vel til fallið, að kirkjumál fari í mentamálanefnd, eins og hæstv. forseti benti á. En vegna þess, að þetta frumvarp fjallar um fjárhagslegt atriði, þá virðist mjer, að það eigi heima í fjárveitinganefnd. Annars get jeg fallist á hvora nefndina sem er.