27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að rjettara sje að vísa frumvarpinu í mentamálanefnd, ef kirkjumál eiga þar á annað borð heima. Frumvarpið felur að vísu í sjer fjárhagslega ábyrgð af hálfu landssjóðs. En í eðli sínu er það samt einvörðungu kirkjumál, sem hefir útgjöld í för með sjer, eins og mörg önnur málefni, sem hverfa undir mentamálanefnd. Mentamálanefndin gæti líka leitað fyrir sjer um þetta atriði hjá fjárveitinganefndinni.

Það er að eins eitt atriði í frumvarpinu, sem jeg vildi drepa lítið eitt á. Það eru orðin „frá 1. janúar 1918 að telja“. Mjer fyndist rjettast, að þessi orð væru feld úr frv., vegna þess, að draga má í efa, hvort landssjóði beri að tryggja skaða af eldri lánum en frá 1. jan. 1918. Tilgangurinn mun auðvitað vera sá, að trygging landssjóðs nái bæði yfir eldri og yngri tíma. En þá er þetta tímatakmark villandi og ætti að falla burt.

Eftir bendingu hæstv. forseta sting jeg upp á, að málinu verði vísað í mentamálanefnd.