01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mentamálanefndin, sem hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje þörf á þeim fyrirmælum eða breytingum, sem frv. fer fram á. Hún lítur svo á, að allskostar tryggilega sje um fje þetta búið með lögunum frá 1890. Nefndin hefir kynt sjer ástæður kirknasjóðs, og álítur fulltryggilega um hann búið, því að hann hefir ekki orðið fyrir neinu tjóni síðan hann tók til starfa. Hann er á vöxtum, aðallega hjá kirkjum, með vægum lánskjörum, sem sje 4%, og í seinni tíð hafa ekki verið veitt lán úr honum nema gegn tryggingu frá þeim mönnum, sem standa að hlutaðeigandi kirkjum, og er þar alstaðar tryggilega um búið. Þar sem frv. gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum breytingum á lögunum frá 1890 en þeim, að landssjóður ábyrgist lánin, og þar sem landsstjórnin hefir ábyrgð á lánunum samkvæmt þeim lögum, álítur nefndin frv. ofaukið og leggur því til, að það verði felt.