01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Forsætisráðherra (J. M.):

Af því að jeg var nefndur, verð jeg að gefa örstutta skýringu, þó að jeg ætlaði ekki að blanda mjer inn í þetta mál. Það er rjett, að hv. frsm. (Sv. Ó.) spurði mig um álit mitt á tryggingu þessa sjóðs, og kvaðst jeg ekki vilja mikið um það tala, en við umræðurnar um þetta frv. í hv. Ed. hafði jeg tekið það fram, að ekki mundi mikil þörf á þessum lögum, þar sem jeg áliti sjóðinn allsæmilega trygðan. En um leið hjelt jeg því fram, að ef landssjóður tæki á sig ábyrgð á þessu fje að einhverju leyti, þá væri rjettmætt að takmarka trygginguna eitthvað, — að landssjóður ábyrgðist t. d. einhverja ákveðna upphæð af sjóðnum. Annars legg jeg ekki mikla áherslu á þetta mál. Áhættan er ekki mikil, hvorki fyrir landssjóð nje fyrir þá, sem kirkjurnar eiga. Einu sinni var dálítil hætta á, að sjóðurinn yrði fyrir halla, en þá var tekin upp sú regla, að láta ekki nægja þá tryggingu, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) reyndar sagði, að lögin ætluðust til að væri látin nægja, að fá tryggingu safnaðarins fyrir láninu. — Annars er ekki vert að ræða mikið um þetta mál. Það er ekki þess vert. En ef frv. verður samþ., þá held jeg, að rjettast væri að setja einhver takmörk fyrir tryggingarupphæðinni.