01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg stend að eins upp til að leiðrjetta mismæli eða mishermi í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Hann sagði, að jeg hefði haft það eftir forsætisráðh., að landssjóður hefði ábyrgð kirknasjóðsins á höndum. Jeg hafði það ekki eftir honum. (G. Sv.: Eftir hverjum þá ?). Jeg hafði það ekki eftir neinum, sagði það alls ekki. En hitt hafði jeg eftir hæstv. forsætisráðh., að hann áliti ekki þörf á þessum lögum, því að sjóðurinn væri fullvel trygður, Það er ekki það sama og að landssjóður beri ábyrgð á honum. — Jeg veit ekki, hvort háttv. nefndarmenn gera það fyrir háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að greiða atkv. með frv., móti sínum eigin tillögum. Fyrir mig get jeg sagt, að það kemur auðvitað ekki til mála, því að jeg er enn jafnsannfærður um það og jeg var áður, að þetta frv. sje óþarft og kirknasjóðurinn sje nægilega trygður.