17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

124. mál, löggæsla

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg get tekið það fram, að í þessu frv. er þess ekki getið, hvernig greiðast skuli kostnaður sá, er leiða mundi af lögunum, en ætlast er til, að gerð sje grein fyrir honum í fjárlögunum.

Eins og jeg tók fram við 1. umr. þá stendur frv. í sambandi við sjerstakan lið í fjárlagafrv. stjórnarinnar, þar sem ætlaðar eru 10,000 kr. til gæslu bannlaganna. Í sambandi við þann lið kæmi þá ákvæði um, hve mikið fje yrði veitt til framkvæmda þessara laga og sömuleiðis til undirbúnings, til þess, að fá „fag“menn í þessari grein. Mál þetta, sem hjer er um að ræða, er alls ekki nýtt. Árið 1914 var skorað á stjórnina með þingsál. að undirbúa betra löggæslueftirlit. Á þingmálafundum 1915 er borin fram sama krafa, og þá var komið með fyrirspurn til stjórnarinnar, hjer í þessari háttv. deild, um það, hvernig hún hefði sint kröfum þessum. Var það þáverandi þm. Ísafjarðar (S. St.) sem fyrirspurnina flutti.

Í ár hafa komið samþyktir frá meira en helmingi allra þingmálafunda um það að skerpa löggæsluna, og á enn þá fleiri fundum hefir hið sama komið fram óbeinlínis, í sambandi við bannlögin.

En stjórnin hefir ekki enn þá sint máli þessu, enda hefir hún í mörg horn að líta. Í mínu kjördæmi voru einnig einróma samþyktar tillögur í þessa átt. Annars er það nýtt fyrirbrigði, að alþýðan skuli krefjast betra lögreglueftirlits í landinu. Yfirleitt hefir það við gengist hjer og í öðrum löndum, að henni hafi verið lítið gefið um löggæslu og verið hvimleið öll lögregla.

Í öðrum löndum er það framkvæmdarvaldið, sem heimtar ríkt lögregluvald, því að þess er að sjá um, að lögunum sje hlýtt, og þess er vansinn, ef brotin eru lögin.

En hjer snýr þetta öfugt við, og til þess liggja þær ástæður, að lögvörnin er ónóg. Lögbrot hafa viðgengist og tollsvik fara sívaxandi, svo að stórmikið tekjutjón er að.

Lögreglueftirlitsleysið er orðið hneyksli í augum smælingjanna, og í augum útlendinga lækkar það virðing þeirra og álit á okkur, og það einmitt á þeim tímum, þegar mest á ríður að við njótum fullrar virðingar og álits annara.

Frv. þetta er í þeim tilgangi flutt, að nokkur bót verði ráðin á ástandi þessu. Það leggur mönnum ekki neitt bákn á herðar, en ætlast að eins til, að kipt verði í lag, smátt og smátt, eftir því sem þörf krefur og efni leyfa, verstu annmörkunum. Aðallega er farið fram á að fá menn, sem sjerþekkingu hafa í þessari grein.

Mjer er fullkunnugt um það, að til eru í landinu kraftar, sem drepa vilja niður alla lögreglustjórn, og óska þess, að landið lendi í óstjórn og agaleysi, svo að þeir geti lifað og látið sem þá lystir. En jeg þykist þess fullviss, að sú siðspillingarstefna eigi enga formælendur hjer í háttv. deild, og þess vegna veit jeg líka, að frv. þessu hlýtur að verða vel tekið af háttv. þingdeild.