17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

124. mál, löggæsla

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi skrifað undir nál., og skal jeg því gera stutta grein fyrir skoðun minni á málinu. Jeg skal vera drengur, sem við gengur, að það var ekki síst vernd bannlaganna, er fyrir mjer vakti. Í 11. gr. fjárlagafrv. eru áætlaðar 10,000 kr. hvort árið til eftirlits með þeim. Jeg tel þetta ákvæði í fullu samræmi við kröfur þingmálafunda víðs vegar um land alt um aukið eftirlit með bannlögunum. Það hefir sumum þótt þetta ákvæði í fjárlagafrumvarpinu nokkuð óákveðið. En þetta frumvarp er skref í áttina að gefa leiðbeiningu um fyrirkomulag eftirlitsins. Hikaði jeg því ekki við að fylgja frv., þótt vera kunni, að betur mætti orða það. Jeg hefði fúslega viljað vera í samvinnu við hv. 1. landsk. þm. (H. H.) um að laga orðalagið á frv., t. d. breyta orðunum: .„eftir því sem þörf krefur“ í 1. gr. frv. í þá átt, sem háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) benti á.

Háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) kvað engin takmörk sett, hve langt mætti fara að auka eftirlitið. Þau takmörk eru sjálfgefin, þar sem frv. miðar við upphæð, er veitt yrði í fjárlögunum á ári hverju, eins og svo mörg önnur gjöld, er landssjóður greiðir og ákveðin eru í fjárlögunum í hvert sinn. Þess vegna þykir mjer nokkuð hart að orði kveðið, að það nái ekki nokkurri átt að samþykkja slíkt frv. sem þetta. Hygg jeg, að vel mætti draga úr þeim orðum. Jeg gæti fallist á, að bætt yrði inn í 3. gr. frv. ákvæði um, að kostnaðurinn greiðist úr landssjóði eftir fjárveitingu í fjárlögunum í hvert sinn.

Annars hefir háttv. frsm. (M. T.) skýrt málið nægilega frá sjónarmiði okkar beggja, og læt jeg því staðar numið að sinni.