17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

124. mál, löggæsla

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf ekki að svara háttv. 1. landsk, þm. (H. H.) miklu. Nægir að vísa til 27. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir svo: „Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sje til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Þetta sýnir, að það nær ekki nokkurri átt, að þessi lög út af fyrir sig geti lagt byrði á landssjóð, sjerstaklega þar sem löggæslan er að eins miðuð við kaupstaði og kauptún, þangað sem siglingar eru mestar. Það er auðvitað, að þeir, sem fjalla um fjárlögin, ákveða, hve margir þeir kaupstaðir og kauptún eru, sem löggæslu þurfa, og hve marga löggæslumenn þurfi á hvern stað.

Um þá fáu menn, sem sendir yrðu út til þess að læra, vil jeg taka það fram,

að ekki er ætlast til, að menn þurfi altaf að læra starfann í útlöndum, heldur á innlend þekking að myndast.

Annars hefði verið hægt fyrir háttv. 1. landsk. þm. (H.H.) að bæta úr þessu, ef hann hefði viljað, með því að gera dálitla brtt. við frv., en það verð jeg að segja, að það er ekki rjett hugsað að vera að tala um tollsvik á bannlögunum. Tollsvik komast þar ekki að, nema ef það væri þá helst lyfsalarnir, sem menn vildi fara að gruna. (H. H.: En þeir sem smygla?) Það er enginn tollur á þeim vínum. Jeg hefi heldur aldrei ætlast til þess, að hægt væri að koma algerlega í veg fyrir það, að bannlögin væru brotin. Svo að jeg taki til dæmis önnur lög, sem þeim eru alllík, sem sje lögin um friðun æðarfugla, þá kváðu þau vera brotin afarmikið. Mjer hefir verið sagt, að sumstaðar skifti menn æðarkollunum í hluti, alveg eins og þeir væri að koma úr róðri. (H. H.: Er það í lögsagnarumdæmi hv. þm. (M. T.)?). Ónei, það er annarsstaðar, en jeg veit til þess. (H. H.: Jeg kannast við það.)

Jeg skal þá með fáum orðum snúa mjer að fyrirspurn hv. þm. Ak. (M. K.). Jeg held, að jeg hafi skýrt tekið það fram, að fjárveiting samkvæmt þessu frv. komi í staðinn fyrir fjárveitingu þá, sem tekin er upp í fjárlagafrv., um bannlögin. Svo verður að athuga það, að um leið og tolllaganna er gætt, þá er bannlaganna gætt líka. En þótt farið sje fram á það nú að aðgreina tollgæslustarfið og löggæslustarfið hjer í Reykjavík, þá held jeg, að það geti staðið nokkuð í hv. þingi og stjórn, áður en það komist algerlega í lag; slíkt þarf mikils undirbúnings með, og er það því á engan hátt spilt starf, sem fer í þá átt að ná í almennilega löggæslumenn.

Annars get jeg vitnað til þess, að í ráði er á Ísafirði og Akureyri að koma öllum bæjarmálum undir stjórn sjerstaks borgarstjóra, og er það ekki að ástæðulausu ; jeg veit t. d. að borgarstjórastörf mín taka fullan þriðjung eða meira af starfskröftum mínum.

Jeg talaði ekkert um það, að þjóð vor væri siðspilt. Jeg lít svo á, að þessi þjóð hafi verið sjerlega löghlýðin, svo sem það ber vott um, að þjófar hafa verið sendir einir síns liðs alla leið norðan af Sauðanesi og hingað í „steininn“. En þjóðinni hefir farið aftur í þessu efni. Tollsvik voru þegar orðin mikil hjer áður en bannlögin komust á, en þau eru sá þvengur, sem menn hafa lært á.

En hvernig löggæslustarfið í mínu umdæmi sje rekið, á ekki við fyrir mig að fara út í hjer, en sje mjer ábótavant í því efni, verð jeg að reyna að herða mig og taka á því litla, sem jeg á til.