17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

124. mál, löggæsla

Eggert Pálsson:

Jeg efast alls ekki um það, að tilgangurinn með frv. þessu sje góður, og þykist skilja það, að fyrir hv. flm. (M. T.) hafi vakað, að betri tollstjórn skyldi verða hjer á landi en nú er. En jeg hygg, að þegar á að fara að leggja grundvöll til nýrrar tollgæslu hjer, þá muni slíkt þurfa rækilegrar íhugunar, og meiri en mjer virðist þetta frv. bera vott um. Get jeg ekki hugsað mjer, að lögð hafi verið mikil hugsun inn í það, heldur hafi því verið flaustrað af, eins og þegar hefir greinilega komið í ljós í umræðunum.

Ef litið er á 1. gr. frv., þá er hún afarófullkomin, þar sem svo er að orði komist, að þessir nýju tolleftirlitsmenn skuli skipaðir eftir því, sem þörf krefur, en hvergi sagt, hverjir meta skuli þörfina. Mjer virðist þess vegna, eins og jeg hefi áður sagt, að þótt jeg sje hugsun þeirri, er jeg hygg að bak við liggi, fyllilega samdóma, þá sje full þörf á því, að lagafrv. þetta sje athugað miklu meir en hjer virðist hafa átt sjer stað.

Hv. flm. (M. T.) sagði, að tilætlunin væri sú, að frv. kæmi í stað þeirra 10000 kr., sem stjórnin ætlaði í fjárlagafrumvarpinu til gæslu bannlaganna. En jeg vil þá spyrja, hefir þá hv. flm. (M.T.) náð nokkru samkomulagi við stjórnina í því efni? Ef stjórnin ætlar sjer annað en hv. flm. (M. T.), þá er hjer slegið í baksegl; stjórnin heldur einu fram, og hv. flm. (M.T.) öðru. Stjórnin kann að koma fram og segja: Það var ekki meining mín, að þessum krónum skyldi verja svona. Mjer finst það vera offrekt hjá hv. flm. (M. T.) að taka þannig algerlega óumtalað 10000 kr., sem stjórnin hefir sett í fjárlögin, og verja þeim eftir sínu höfði, án þess að grenslast eftir, hver tilgangur stjórnarinnar hafi verið með þessari fjárveitingu. Jeg þyrfti að minsta kosti að vita það frekar en orðið er, að eitthvert samkomulag hefði átt sjer stað milli stjórnarinnar og hv. flm. (M.T.) í þessu efni.

Jeg hygg, að nú sje orðið svo áliðið tíma þingsins, að ekki sjeu tök á að búa til sæmil. góð lög um tolleftirlit, frekar en þegar hefir gert verið. Spor í þá átt hefir þegar verið stigið af þessu þingi, þar sem er frv. um skifting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík, því að sú skifting miðar vitanlega til betra tolleftirlits í stærsta kaupstað landsins. Það frv. hefir þegar gengið í gegnum hv. Nd., og er nú komið til vor. Þar er gott spor stigið til að byrja með, og væri gott, ef það gæti orðið til undirstöðu undir frekari og betri tolllög í framtíðinni. En að svo vöxnu máli get jeg ekki ljeð þessu frv. fylgi mitt, svo meingallað sem það er, sjerstaklega 1. gr, þess, enda þótt jeg kannist fyllilega við, að mikil þörf sje á lögum um þetta efni, væru þau sæmilega úr garði gerð.