20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki á móti því, að tillaga um að hækka lægstu laun hreppstjóra nái fram að ganga, en mjer finst óþarfi að vera að lækka þessi litlu laun niður úr 120 kr. hjá hæsta launaflokki. Jeg skil ekki í, að það sje nauðsynlegt, því að jeg hygg, að háttv. deild vaxi ekki svo í augum einar 10 kr. meira eða minna, og hún mundi áreiðanlega fást eins til að hækka lægsta flokkinn, þótt sá hæsti hjeldi sjer. Jeg held því, að rjett sje að fella staflið a, en samþykkja hina tvo, nema ef háttv. flutningsmaður vildi taka staflið a í brtt. sinni aftur. (H. K. : Jeg skal gera það, ef b og c verða samþyktir). Mjer finst þetta svo óverulegt. Jeg man ekki, hve margir eru í hæsta flokki, en landssjóð munar áreiðanlega ekkert um þessar 10 krónur til hvers þeirra.