17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

124. mál, löggæsla

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg talaði um þetta frv., eins og það lá fyrir, og mjer lá næst að skilja það. En skýringar þær, er háttv. 2. þm. G. -K. (K. D.) hefir tekið fram, eru góðar, og er sjálfsagt að taka þær til greina, að því leyti, sem við á, en þær eru þó ekkert annað en skýringar, sem ónógar yrðu við framkvæmd laganna, og get jeg því ekki betur sjeð en að rjettara hefði verið að tilfæra þá þetta í 1. gr. frv.

Jeg get því ekki annað en haldið mig að hinu sama og áður, að stjórnin verði að skipa þessa löggæslumenn, en eins og nú stendur er ekki til annars að grípa en til fjáraukalaga. En eftir því, sem jeg veit best, þá eru þessar 10000 kr., sem verið er að minnast á í þessu sambandi, veittar í sjerstökum tilgangi, og komi því ekkert í þeirra stað, þá verður stjórnin að gera eitt af tvennu, annaðhvort að vanrækja að framfylgja lögunum, sökum þess að engin fjárveiting er ætluð í þessu skyni, eða taka upp í aukafjárlög viðeigandi fjárhæð.