23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

124. mál, löggæsla

Halldór Steinsson:

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd, í tilefni af ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.).

Honum þótti eigi góður þefur sá, er lagði frá Snæfellsnesi, og fæ jeg það vel skilið, að honum þyki gola sú ekki góð, því að hún blæs móti því, að hann fái vikapilt þann, er hann vill fá með frv.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að löggæsla hneykslaði mig, en jeg vil mótmæla því, að jeg hafi svo mælt, eða nokkuð það, er gæfi ástæðu til þeirra ummæla. (M. T.: Bara ræðan öll). Það er ekki rjett.

Hv. þm. (M. T.) vildi gera lítið úr ferðakostnaðinum og sagði, að landsstjórnin endurskoðaði reikninga. Jeg býst við því, að það sje ekki hægt að leggja mikið upp úr þeirri endurskoðun, því að stjórnin yrði í flestum tilfellum að fara þar eftir tillögum lögreglustjóranna, og ætli lögreglustjórarnir yrðu ekki óánægðir, ef þeir yrðu sjálfir að leggja fram fje — jafnvel stórar upphæðir — í þessu skyni? Jeg býst við því.

Það er einkennilegt um þennan hv. þm. (M. T ), að við aðra umr. viðurkendi hann, að ætlunin með þessu frv. væri að vernda betur bannlögin, en nú er eins og hann sje hálffeiminn að viðurkenna það (M. T.: Langt frá því) og segir, að það sje aðallega almenn tollgæsla. (Jóh. Jóh.: Ummælunum er snúið við).