23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Við þennan kafla á jeg að eins eina brtt., og er á annari með öðrum þingmanni. Þessi brtt. mín er á þgskj. 543 og fer fram á það, að veittar sjeu 2000—1000 kr. — eða til vara að eins 2000 kr. eitt ár — til vegagerðar í Gaulverjabæjarhreppi. Þessi hreppur er í raun og veru vegarlaus og illur yfirferðar, (Atvinnumálaráðherra: Já, vissulega). Hæstv. atvinnumálaráðherra segir: »já, vissulega«. Mjer þykir vænt um, að hann staðfestir mál mitt. Þessi vegarspölur, sem á að leggja, er 7 km. að lengd, og er áætlað, að hann muni kosta nálægt 10000 kr. Vegurinn verður því mjög dýr, sem stafar af því, að mjög erfitt verður með ofaníburð í allan veginn. Ætlast er til, að hann liggi af sýsluveginum austur með sjónum, um Gaulverjabæ og yfir þveran hreppinn, svo að hann kemur öllu miðbiki hreppsins að notum. Þörfin fyrir þessa vegagerð er að verða brýnni og brýnni, eftir því sem menn fara að gera meira að því að flytja þungavöru sína á vögnum. Nú er það að verða algengt. Meðan alt var flutt á klökkum var þörfin ekki eins aðkallandi. Menn gátu klungrast með klyfjahesta þar, sem ómögulegt er að komast með vagna. Þetta er því, eins og allir sjá, nauðsynjamál. Jeg skal líka láta þess getið, að þessi styrkveiting er algerlega hliðstæð svipuðum styrkveitingum, sem veittar hafa verið áður. Má t. d. nefna vegina í Fljótshlíð og í Svarfaðardal. Jafnvel í till. fjárveitinganefndar er ekki ósvipað dæmi, þar sem er tillag til brúa á Dynjandaár í Arnarfirði, sem líka eru á hreppavegi.

Jeg skal svo ekki tala lengur um þetta, en vona, að háttv. þingmenn líti á nauðsynina og greiði atkvæði með þessari brtt., ef ekki með aðaltill , þá að minsta kosti með varatill.

Úr því að jeg er staðinn upp, langar mig til að víkja nokkrum orðum að fjárveitingum til vegagerða yfirleitt.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) gat þess, þegar hann var að finna að við fjárveitinganefndina, að stjórnin færi ávalt eftir tillögum verkfræðingsins með áætlanir sínar um fjárveitingar til vegagerða, sjerstaklega til flutningabrauta. Þar eiga sjer þó stað undantekningar, eins og víðar. Jeg veit ekki betur en að verkfræðingurinn hafi lagt til, að veittar yrðu 15000 kr. hvort árið til Grímsnessbrautar. En stjórnin hefir fært þá fjárveitingu niður í 10000 kr. Jeg hefi ekki komið með brtt. við þennan lið af kurteisi við stjórnina, af sparnaðarástæðum og af öðrum ástæðum, sem jeg hirði ekki að nefna, og ekki af því, að ekki sje nauðsyn að flýta þeirri braut. Þetta er mest aðkallandi vegagerðin, sem nú er á prjónunum. Biskupstungurnar eiga þar hlut að máli. Þær eru stór sveit, eiga mjög langt til aðdrátta, eru algerlega veglausar, illar yfirferðar og sundur skornar af stórum vatnsföllum. Það er því full ástæða til að flýta þessum vegi, svo að þessi sveit geti farið að njóta hans.

Ekki víti jeg nefndina, þótt hún hækki fjárveitinguna til viðhalds vega. Vegaviðhaldinu er mjög ábótavant, sennilega af fjárskorti.

Vegurinn austur, sem er langfjölfarnasti vegurinn á öllu landinu, er stundum alveg ófær á köflum, bæði vor og haust. Jafnvel í júlímánuði í sumar var hann lítt fær með vagna og bíla, þótt hann væri farinn. Jeg mun því án efa greiða atkvæði með þessari hækkun nefndarinnar. Sama er að segja um fjárveitinguna til akfærra sýsluvega. Jeg mun styðja það, að hún sje hækkuð úr 18000 upp í 25000. Sýsluvegirnir hafa nú um langan tíma legið í kalda koli. En eftir því sem notkun vagna fer í vöxt verður þörfin brýnni fyrir góða vegi. Það er því rjett að hækka þessa upphæð.

Þá er eitt atriði enn, sem mig langar til að minnast á. Á þingmálafundi í vor í Árnessýslu kom fram áskorun um það, að vegurinn í Smiðjulaut á Hellisheiði væri færður úr stað, og kröppustu beygjurnar í Kömbum lagfærðar. Sýslunefndin sendi þessa áskorun til stjórnarráðsins, en þau plögg hafa ekki verið lögð fram. Jeg segi ekki, að þeim hafi verið stungið undir stól. En það hefir líklega farið um þau eins og Alexander Kjelland, í sögunni »Arbejdsfolk«, lætur fara um skjöl, sem mikil leit varð úr í norska stjórnarráðinu, en fundust þó á endanum, eftir »dúk og disk«. Það er kominn tími til að lagfæra þetta. Jeg býst við, að við austanþingmenn komum með viðaukatillögu við 3. umr. um fjárveitingu til þess að færa úr stað veginn í Smiðjulaut. Hann liggur undir fönn langt fram á vor og hindrar umferð með vagna.

Enn fremur langar mig til að víkja að einu atriði, til athugunar og eftirbreytni fyrir hæstv. landsstjórn. Það er um vitana. Í núgildandi fjárlögum er veitt fje til að byggja vita, en þeir verða ekki bygðir á þessu fjárhagstímabili, sökum dýrleika efnis. Á meðal þessara vita er Selvogsvitinn. Þó eru í frv. stjórnarinnar teknar upp fjárveitingar til nýrra vita, en ekki endurfjárveitingar til hinna fyrri. Líklega stafar það af því, að þegar stjórnin samdi frv. sitt, hafi það ekki verið ákveðið, hvort vitarnir yrðu bygðir á þessu ári eða ekki. Jeg vona, að stjórnin ætlist ekki til, að þeir falli alveg úr sögunni. Jeg ávíta ekki stjórnina fyrir það, þótt hún hafi frestað byggingu vitanna. Jeg tel ekki geta komið til mála að sleppa þeim, heldur verði þeir bygðir svo fljótt sem hægt er, og það á undan þeim vitum, sem teknir eru upp í fjárlögin nú.

Um annað ætla jeg ekki að tala að þessu sinni. Jeg hefði haft ástæðu til að athuga hækkun útgjaldanna til símans, einkum og sjer í lagi til stöðvanna í Reykjavík, Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði. Stjórnin er spör á skýringum um þessa aðkallandi hækkun. Auk þess er liðurinn til aðstoðar hækkaður um helming, og allir liðirnir yfirleitt mikið hækkaðir. Jeg er ekki beinlínis að telja þessa hækkun eftir, þótt hún sje nokkuð mikil, en jeg vildi gjarnan fá skýringu á því, hvernig á henni stendur.

Annars er það öllum kunnugt, að sá maður, sem þessum málum stjórnar, símamálunum, er mjög aðgönguharður við fjárveitingavaldið; hann er að vísu mjög duglegur maður, en kröfuharður í meira lagi, bæði um fjárveitingar til símanna og til kauphækkunar. Það er jafnvel ekki laust við, að hann á stundum beiti fullu gerræði, eins og þegar hann setti upp gjaldið fyrir símasamtölin o. fl., sem vikið hefir verið að hjer í deildinni, og ástæða hefði verið til fyrir fjárveitinganefnd að athuga nánara.

Að svo stöddu ætla jeg ekki að fjölyrða meir, en vona, að háttv. þingd. samþykki að minsta kosti varatill. mína um veginn í Gaulverjabæjarhreppi.