02.08.1917
Efri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (3012)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við greinargerðina í frumvarpinu. Jeg vil að eins leyfa mjer að benda hv. deild á, að í ráði er að vinna þær hafnarbætur, er frumv. ræðir um, samkvæmt áætlun frá hafnargerð Reykjavíkur. Væntanlegri nefnd munu verða afhentar teikningar og áætlanir yfir hafnarbót á Pollinum, sem nú eru hjá hafnargerð Reykjavíkur og ekki er enn gengið frá til fullnustu.

Það er langt síðan Ísfirðingar fundu til þess, að þá vantaði hafnarbryggju. Það eru nú 20 ár síðan. Og þessi vöntun hefur orðið tilfinnanlegri með hverju árinu, sem við er að búast, því að Ísafjörður er eini kaupstaður landsins, sem ekki á hafnarbryggju. En við því er hins vegar ekki að búast, að ráðin hafi verið bót á bryggjuleysinu. Þó að hafnarsjóðurinn sje orðinn talsvert efnaður, eftir því sem hjer gerist — eigi um 90 þús. kr. —, þá hafa samt sjerstakar ástæður valdið því, sem óþarft er að greina hjer frá, að hafnarmálinu hefir ekki verið hrundið í horf.

Það, sem sjerstaklega knýr oss til hafnarbótar, er, meðal annars, fiskaflinn á vetrarvertíðinni. Vetrarvertíðin er oft besti fiskitíminn á árinu, og eins og kunnugt er, stunda togarar þá einatt veiðar frá Ísafirði, þangað til þeir fara á veiðar fyrir sunnan land.

Á Ísafirði hefir risið upp allálitlegur bifbátafloti, sem óðum fer stækkandi, og bifbátarnir sækja sjó allan ársins hring. Þeir þurfa afdreps með.

En hafskipabryggja og hafskipakví eru fyrirtæki, sem þurfa mikils fjár með, mun meira en Ísfirðingar einir eru færir um að greiða, og þess vegna er farið fram á það í 1. gr. frumv. þessa, að veitt verði til þess nokkurt framlag úr landssjóði, þó ekki fyr en fjárlögin ákveða.

Hjer er ekki að eins að ræða um þörf bæjarins, heldur líka landsins alls.

Jeg hygg, að það verði óhjákvæmilegt fyrir landið að hafa tollstöðvar í helstu kaupstöðum landsins og hafa aðgang að landi og tækjum algerlega fyrir sig.

Jeg býst við, að mönnum muni þykja krafan um fjárframlagið nokkuð há, en þess ber að gæta, að þetta fyrirtæki myndi eigi að eins hækka hag bæjarins, heldur einnig sýslunnar, og jeg er í engum vafa um, að það mundi verða til stórgróða fyrir landssjóð, eins og t. d. sumar símalínurnar. Þær eru sumar búnar að marg — margborga sig.

Útgjöld landssjóðs í þarfir Ísafjarðarkaupstaðar hafa verið hverfandi lítil, en tekjur þær, er þaðan hafa runnið til landssjóðs, mjög miklar.

Eftir rjettum og venjulegum búreikningi er enginn vafi á því, að Ísafjörður á álitlega fúlgu í landssjóði.

Ísafjarðarkaupstaður er einhver besta mjólkurkýr landsins. Jeg býst ekki við, að þingið telji það búhnykk að horsvelta svo góðan grip.

Jeg leyfi mjer að lyktum að óska þess, að málinu verði vel tekið, og að þessari umræðu lokinni vísað til sjávarútvegsnefndar.