02.08.1917
Efri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi vitanlega ekki mikið við þetta frumv. að athuga, en jeg vildi þó vekja athygli á málinu í heild sinni. .

Hv. flm. (M. T.) sagði, að Ísafjörður hefði haft svo mikla þörf á að fá hafnarbætur, að það væri ekki auðið að útskýra það eins og vert væri. En jeg verð að játa það, að jeg tel minni þörf sjerstakra hafnarbóta á Ísafirði en víðast annarsstaðar á landinu. Fyrst og fremst má geta þess, að þar eru að minsta kosti 2 hafskipabryggjur — sem eru einstakra manna eign —, sem skip geta lagst við. Hefir Ísafjörður þar staðið kauptúna fremst, og langtum framar en sjálfur höfuðstaðurinn, Reykjavík, þar sem engin skip hafa getað lagst að bryggju. Og þrátt fyrir hinar stórfeldu hafnarbætur hjer í Reykjavík getur ekki enn nema 1 skip lagst að bryggju. En það er rjett með farið hjá hv. flm. (M. T.), að hafskipabryggjurnar á Ísafirði eru eign einstakra manna, og því altaf meira eða minna undir þeim komið, hversu vel færi um bæinn í þessu efni, en sannleikurinn er sá, að eigendur þessarar bryggju á Ísafirði hafa ekki sýnt ójöfnuð, heldur hafa allir getað komist að þessum bryggjum, en má ske gegn einhverju litlu gjaldi. En þetta á ekki að spilla fyrir hafnarbótum á Ísafirði.

En það þarf að athuga það, hvort það er áreiðanlegt, að Ísfirðingar sjálfir óski þessara hafnarbóta.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að landssjóður leggi fram 150 þúsund krónur til fyrirtækisins, og að hafnarsjóður Ísfirðinga leggi fram þá upphæð þrefalda, eða 450 þúsund krónur.

Eftir því, sem hv. flm. (M. T.) sagðist frá, þá á hafnarsjóður Ísfirðinga nú 90 þúsund krónur, svo að það er bersýnilegt, að hafnarsjóður verður að setja sig í miklar skuldir, og þær lenda á kaupstaðnum fyr eða síðar.

Það er skoðun mín, að þessar 150 þús. kr. sjeu ekki ofveittar til Ísfirðinga, ef þeim mættu þær að verulegu gagni verða, en á hinn bóginn vil jeg ekki gera þá að ginningarfíflum til að leggja fje í það, er þeir hefðu ekki verulegt gagn af.

Það er enginn vafi á því, að það væri stórmikil framför fyrir þá, ef Pollurinn yrði gerður að höfn, og mundu þessar 150 þús. kr. líklega nægja til þess. Við Pollinn eru allar aðalbyggingarnar, allar þær byggingar, sem nokkuð kveður að, og svo er Pollurinn algert sjerstakt hafnarstæði, skapað af náttúrunnar hendi.

Sú ástæða er færð gegn því að gera höfn þar, að oft komi fyrir, að Pollinn leggi í frostum, en það má gera ráð fyrir því, að þótt farið væri að ausa miklu fje í höfn þar, sem erfiðara og dýrara er að byggja hana, að hana gæti alt eins vel lagt. Því að gæta ættu menn að því, að þar er að eins um nýjan Poll að ræða, sem hefir þann einn mun frá hinum eldri, að hann væri gerður af mannahöndum, og hefði kostað ógrynni fjár.

Þetta er hending, sem jeg óska að tekin verði til íhugunar, þegar málið verður tekið til athugunar í nefnd. Þá vona jeg, að nefndin athugi tillag landssjóðs, hvort þetta nægir, ef höfnin er bygð fyrir utan, eða hvort svo mikið þurfi, ef Pollurinn verður gerður að höfn.

Jeg veit, að hv. flm. (M. T.) muni segja, að verkfræðingar verði látnir athuga bæði hafnarstæðin, og að þeir geti betur dæmt um það en jeg, og má vera, að svo sje, en jeg verð að telja það æskilegra, að málið væri athugað strax, enda hafa komið fram raddir um það í blöðunum, að hættulegt væri að byggja höfnina utan Eyrar.

Hv. flm. (M. T.) sagði, að fiskiskipin vantaði hlje, en það skil jeg ekki, því að það hafa þau þar sem Pollurinn er, ef íslaus er, og þótt búinn væri til nýr Pollur með ísum, bætti hann ekki úr.

Og ekki lítur út fyrir, að þar sje hljelaust, því að þangað leita mótorbátar víðs vegar að, því að hvergi í grendinni er svo góða höfn að finna sem þar.

Jeg verð að játa, að jeg skildi ekki það, sem hv. flm. (M.T.) sagði, að höfnin mundi jafnt borga sig fyrir landssjóð sem símalínur þær nú gera, sem bestar eru. Við vitum allir, að það er óbeinn hagnaður fyrir landssjóð að hlynna að framkvæmdum, en að nefna þetta í sambandi við símann, er ekki rjett, því að landssjóður hefir beinar tekjur af símanum, en það hefir hann aldrei af höfn á Ísafirði.

Hvað Ísafjörður hafi verið góð mjólkurkýr fyrir landssjóð skal jeg láta ósagt, en hygg, að það sje óvíst, að hún verði þeim mun betri, sem hún er fóðruð betur. Kýr hætta oft að mjólka, ef ofvel eru fóðraðar, verða offeitar. Það er best að ala við hóf.