02.08.1917
Efri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg get verið sjerlega þakklátur hv. 4. landsk. þm. (G. G.) fyrir það, að hann hefir lekið að sjer að vera einskonar forsjármaður fyrir Ísafjörð. Það er ekki lítið varið í það fyrir okkur Ísfirðinga að eiga annan eins hauk í horni og hann er.

Hv. 4. landsk. þm. (G.G.) gerði lítið úr því, að þörf væri á hafskipabryggju á Ísafirði, því að þar væru 2 bryggjur. Það er rjett, að þar eru tvær bryggjur, en þær eru báðar einstakra manna eign. En jeg vil algerlega neita því, að bæjarmenn á Ísafirði hafi haft ótakmarkaðan aðgang að þeim.

Þær halda uppi einokun á Ísafirði. Aðrir borgarar á Ísafirði hafa ekki staðið eins vel að vígi og bryggjueigendur, Þeir hafa ekki getað stundað fiskkaup vegna bryggjuleysis, og hefir það verið bænum til stórskaða. Það eru ekki nema 2 ár

síðan gefið var 6 aurum minna fyrir fisktvípundið á Ísafirði en hjer í Reykjavík, og vita þó víst allir, að vestfirskur fiskur stendur yfirleitt hærra á erlendum markaði en sunnlenskur fiskur.

Í þessu liggur orsökin að því, hversu snauðir útgerðarmenn og kaupmenn á Ísafirði hafa verið. Það er vegna þess, að þeim hefir verið haldið niðri.

Þá hjelt hv, þm. (G.G.), að Ísfirðingum mundi verða ofþyngt með þessu, en jeg hygg, að hann viti ekkert um það, hvaða ráðstafanir þeir hafa gert hjer um. Jeg gat þess, að hafnarsjóður væri orðinn 90 þús. kr., og hann fer altaf vaxandi, og verður orðinn yfir 100 þús. kr. þegar byrjað verður á þessu fyrirtæki. Hafnartekjur eru í meðalári alt að því 5000 kr.t og nú hefir hafnartaxtinn verið hækkaður. Hafnarsjóður er því vel fær til lántöku, og það þeim mun fremur, þar sem bæjarsjóður Ísafjarðar stendur sig allra bæjarsjóða best hjerlendis, og því er engin ofraun fyrir hann að leggja í slíkt fyrirtæki, og ætti ekki að geta það síður en t. d. Reykjavík.

Jeg held, að Ísfirðingar hafi sýnt það, að þeir kunni að stjórna málefnum sínum, og þeir þurfa alls ekki neinar bendingar í þá átt norðan af Ströndum.

Þá sagði sami hv. þm. (G.G.), að það ætti að fara að mynda nýjan Poll. Þetta sýnir betur en alt annað, að hv. þm. (G. G.) er alls ekki fær til að tala um þetta mál, því að hann veit ekki, að Pollurinn er eins og stöðuvatn. Hann veit það bersýnilega ekki, að þegar aðfall er, þá kemst enginn dropi úr þrem ám, er renna í Pollinn, út úr honum. Vatnið úr þeim liggur ofan á saltvatninu og frýs alveg eins fljótt og vatn á landi. Jeg hefi sjálfur tekið eftir því, að Pollinn skænir jafnfljótt og pollana á götunni fyrir utan gluggana mína.

Fyrir utan Pollinn hefir sjórinn fulla seltu, og frýs þess vegna ekki nærri því eins fljótt. Jeg hefi líka tekið eftir því, að þegar sundin hafa verið full af ís, og þar hefir verið eins og pollur, þá hefir sama sem ekkert lagt þar, þó að álnarþykkur ís hafi verið á Pollinum.

Hvað það snertir, að Ísfirðingar þurfi að fá forráðamann, þá er því þar til að svara, að Ísfirðingar eru með lögum þessum settir undir stjórnarráðið og geta ekki framkvæmt hafnarvirkið nema með þess ráði og vilja, og verð jeg að telja stjórnarráðið betur til forsjónar fallið en hv. 4. landsk. þm. (G. G. ).

Þessu skrafi hv. 4. landsk. þm. (G. G.) um Pollinn er annars best svarað með því, að Ísfirðingar mundu, ef auðið væri, nota hann, því að það er svo miklu ódýrara. Sami hv. þm. (G.G.) var að minnast á ritgerð, sem kom í blöðunum, um hafnarmálið, en jeg öfunda hann ekki af því að taka þá grein að sjer.

Jeg sagði það vitanlega ekki í ræðu minni, að landssjóður myndi fá beinar tekjur af þessu, en þó er það ekki rjett nema að nokkru leyti, því að það er áreiðanlegt, að siglingar myndu aukast að miklum mun til Ísafjarðar, og þá um leið skipagjöld, en jeg er viss um, að óbeinn hagur af þessu, bæði tollar og annað, mundi draga landssjóð drjúgum.