02.08.1917
Efri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg verð að ákveða nánar þessa forsjá, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G) er að leika. Það er ekki forsjá fyrir Ísafirði, heldur fyrir útlendu selstöðuverslununum þar. Öll hans framkoma bendir á það. Mjer þykir einkennilegt, að hann skuli leyfa sjer slíka framkomu, þegar hann veit, að bak við fjárbeiðnina stendur öll bæjarstjórnin og einhuga ósk þingmálafundar. Jeg veit, að til eru að vísu menn á Ísafirði, sem standa á móti þessu máli, en þeir eru hættir að þora að koma fram í dagsljósið. En hv, 4. landsk. þm. (G. G.) þorir að gera það hjer í deildinni. Það er öllum kunnugt, að þessar verslanir, sem hann er málsvari fyrir, vilja alls ekki, að neitt verði gert, og er það að vonum, því að þær eru nú orðnar aflóga fje.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) var að tala um óskammfeilni í sambandi við mig, Jeg held, að mjer sje óhætt að vísa þeim orðum aftur á sinn framfærsluhrepp. Hann taldi það m. a. óskammfeilni af mjer að hafa sagt, að eigendur bryggjanna hefðu meinað mönnum afnot þeirra. En það vita allir, sem á Ísafirði hafa verið, að þetta hefir verið gert í marga tugi ára. Og þetta er í raun og veru ekkert undarlegt, því að kaupmennirnir hafa vitanlega bygt þær fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. Annars get jeg nefnt tvö dæmi, þar sem þetta hefir komið sjerstaklega berlega í ljós.

Annað var það, er önnur aðalverslunin þvergirti bryggju sína og neitaði jafnvel póstbátnum, sem styrktur er af landssjóði, um að nota hana, og kúgaði hann að lokum til þess að gjalda fyrir það mörg hundruð krónur. Hitt dæmið er frá því, er síminn kom til Ísafjarðar. Höfðu þá nokkrir plankar verið settir á aðra bryggjuna. Var þá sendur strákur til mín með þau skilaboð, að jeg ljeti hirða plankana tafarlaust. Jeg fór þá og talaði nokkur vel valin orð við hlutaðeiganda, svo að ekkert frekara varð úr því að vísa þeim á burt.

Hvað það snertir, að einokun hafi átt sjer stað á Ísafirði, þá skal jeg geta þess, að menn hafa orðið að kaupa kol 50% dýrara þar en þau kostuðu í Reykjavík. Þetta varð til þess, að bæjarbúar fóru sjálfir að afla sjer kola, en þegar til kom, fengu þeir enga bryggjuna, og svo mikið var ríki kaupmannanna þar, að hvergi var hægt að koma kolunum af sjer, fyr en jeg lánaði undir þau blett, sem jeg átti.

Annars held jeg ekki, að það sje neinn gróði að því að fara að minnast frekar á athæfi það, sem haft hefir verið í frammi í verslunarsökum á Ísafirði, og jeg skil ekki, að þeir menn, sem hjer eiga hlut að máli, sjeu neitt þakklátir háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) fyrir að hafa innleitt þær umræður hjer á þingi.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) var að minnast á það, að nefndin, sem væntanlega fjallar um þetta mál, ætti að athuga, hvar hafnarbæturnar ættu að vera. Slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt og mun engum hafa hugkvæmst það fyr. Bærinn ræður því vitanlega sjálfur og fer þar eftir tillögum hafnarverkfræðings, sem rannsakað hefir málið. Bærinn gerir út um alt, sem snertir framkvæmdir verksins, í samráði við stjórnarráðið, eins og ráð er gert fyrir í frumvarpinu.

Öðru get jeg slept í ræðu hv. 4. landsk. þm. (G. G.) að þessu sinni.