17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (3019)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Sjávarútvegsnefndin hefir haft mál þetta til meðferðar og hefir rannsakað það og athugað. Hún leggur til, að frv. verði samþykt.

Við hafnarlögin sjálf er ekkert að athuga; þau eru samhljóða öðrum hafnarlögum hjer, en þau eru frábrugðin þeim vegna ákvæða þeirra, sem eru í 1. gr. frv., um fjárframlag úr landssjóði.

Það kunna einhverjir að segja, að óþarft muni vera að verja miklu fje til hafnargerðar á Ísafirði, því að þar sje sjálfgerð höfn. Það er satt. Pollurinn þar er einhver besta höfn landsins, en hann fullnægir ekki þeirri þörf, sem framþróunin krefur, og þeim kröfum, sem þar verða gerðar, eftir atvinnurekstri þeim, sem rekinn er á því svæði. Pollurinn hefir og þann galla, að hann frýs á hverjum vetri, er frosinn á útmánuðum og stundum fyr, en þá þurfa mótorbátarnir á höfn að halda.

Eins og öllum er kunnugt fer bifbátaflotinn á Ísafirði stórum vaxandi, og verður ekki sjeð hve mikið hann getur vaxið enn, ef bætt yrði höfnin.

Það má með sanni segja, að Ísafjarðardjúp sje ein af mestu gullkistum landsins, og má því gera sjer vonir um stórkostlega framleiðslu þar.

Hjer hefur verið lagður fram uppdráttur af hafnarsvæðinu, eftir Monberg, og

sömuleiðis áætlun um kostnað. Er þar gert ráð fyrir talsverðri uppfyllingu og ýmsum útbúnaði, sem nauðsynlegur er, svo að bifbátarnir geti haft eitthvert skýli eða afdrep þegar ísalögin koma.

Nefndinni hefir ekki blandast hugur um, að háttv. Alþingi muni sjá þá nauðsyn, er krefur í máli þessu, og hefir því ekki hikað við að mæla með fjárveitingu þeirri, sem farið er fram á í frv. Sömuleiðis hefir fjárveitinganefndin ritað samþykki sitt undir.

Þá hefir nefndin gert þá athugasemd, að hún telji rjett, að sú regla komist á, að áætlanir um slík stórfyrirtæki verði samþyktar af stjórninni, svo að hún geti kynt sjer undirbúning þeirra og leitað álits verkfróðra manna.

Brtt. nefndarinnar, á þgskj. 471, er að mestu leyti sama efnis og 1. gr. frv. Að eins er bætt við því ákvæði, að landssjóður leggi til ¼ hluta kostnaðar, eftir áætlun, sem stjórnin hefur samþykt.

Þá hefir nefndin líka gert þá athugasemd, að hún ætlast til, að ekki verði ráðist í fyrirtæki þetta fyr en dýrtíðinni ljettir.

Jeg hefi svo ekki fleira um málið að segja, en vil að eins óska þess fyrir nefndarinnar hönd, að frv. verði samþykt.