14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg hefi eiginlega engu við að bæta það, sem er í nál. meiri hl. allsherjarnefndar um þetta mál.

Meiri hluti nefndarinnar getur sem sje ekki fallist á það að fara nú að káka við launamálið eða einstaka liði þess, á annan hátt en gert er með dýrtíðaruppbótinni. með tilliti til þess, að gagngerð breyting á launalögunum stendur fyrir dyrum, og það má ganga að því vísu, að eigi líði langur tími áður sú breyting verði gerð.

Eins er það, að meiri hluti nefndarinnar getur ekki fallist á, að sjerstök knýjandi áslæða sje til þess að taka yfirdómendurna út úr nú og hækka laun þeirra.

Meiri hluti nefndarinnar getur alls ekki fallist á, að þeir geti öðrum síður beðið þeirrar breytingar, er liggur við borð að gera á launalögunum. Þvert á móti myndu sumir aðrir starfsmenn landsins misrjetti beittir, ef þessi eini liður væri tekinn út úr launakerfinu og hækkaður, en annað látið standa óbreytt.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til, að frumvarpið verði felt.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), formaður nefndarinnar, er eiginlega samþykkur niðurstöðu þeirri, er meiri hl. hefir komist að í þessu máli, en vill vísa því frá með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er á þgskj. 897. Eins og jeg hefi tekið fram gengur meiri hluti nefndarinnar að því vísu, að ekki dragist lengi, að þetta mál verði lagt fyrir þingið, og virðist þá meiri hlutanum, sem áskorunar þeirrar, er í dagskrá þessari felst, sje ekki þörf. Þetta launamál hefir, eins og mönnum er kunnugt, verið undirbúið af milliþinganefnd, og hvað sem um þann undirbúning er nú annars að segja, þá virðist meiri hluta nefndarinnar, að landsstjórninni sje innan handar að gera breytingar á tillögum milliþinganefndarinnar, áður en hún leggur þær fyrir þingið, ef henni sýnist svo, án þess að það sje beint skorað á hana að gera það.