14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki getað orðið samferða háttv. meðnefndarmönnum mínum í allsherjarnefndinni um þetta mál. Jeg vildi, að minsta kosti að nokkru leyti, taka til greina þetta frv. frá Ed., og er það af þeirri ástæðu, að mjer sýnist tvísýnt, að launamálið í heild verði endurskoðað á næstu árum. Mjer virðist ekki ára þannig, að hægt sje að taka þau til yfirvegunar á næstu árum. Jeg býst við, að menn vilji bíða þar til verðlag er aftur komið í rjett horf. Þess vegna sýnist ástæða til að bæta sumum upp nú, og þá þeim, sem hjer um ræðir, því að það stappar nærri því, að þeim væri á þingi 1915 lofað launahækkun. Til þess er líka sjerstök ástæða önnur, sem nefnd er í nál. mínu, sem sje sú, að svo má heita, að þessum embættismönnum sje bolað frá því að geta aukið tekjur sínar, með því að taka að sjer aukastörf. T. d, er þeim bönnuð þingseta. Og þótt það bann nái ekki til þeirra manna persónulega, er nú hafa þessi embætti, er það þó ekki vel sjeð, að þeir vasist í þeim málum, er ekki lúta að starfi þeirra.

Jeg hefi því borið fram brtt. við frv., eins og það kom frá Ed., því að jeg þóttist þess fullviss, að það gæti ekki gengið fram óbreytt hjer í deildinni. Þessi brtt. er svo sniðin, að jeg býst við, að hún hljóti að geta fallið inn í launakerfið á sínum tíma, án þess að valda ruglingi. Jeg skal líka taka það fram, að jeg ætlast til, að laun þessara embættismanna sjeu endurskoðuð á sínum tíma ásamt launum annara embættismanna.

Jeg get ekki vel skilið, hvers vegna hv. meiri hl. getur ekki verið með rökstuddu dagskránni, um að vísa málinu til stjórnarinnar, úr því að hún lýsir yfir því, að hún búist við, að launalögin verði endurskoðuð mjög bráðlega. (P. 0.: Það er óþarft). Jeg skil ekki, að það sje óþarft. Jeg efast satt að segja um, að þessi endurskoðun geti farið fram á næstu árum, af þeirri ástæðu, sem jeg hef áður getið um.