14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi áður hreyft því í þessari hv. deild, að mjer sýndist varla fært annað en hækka laun yfirdómaranna þegar á þessu þingi. Úr því að samþykt hefir verið frv., sem veitir vissum undirdómara miklu hærri laun, sýnist varla fært annað en bæta laun yfirdómaranna, þótt ekki væri nema eitthvað lítið. Jeg hefi minst á það áður, að jeg teldi, að yfirdómararnir hefðu fengið fyrirheit um launaviðbót, þegar tekinn var af þeim rjettur til að sitja á þingi, og þess óskað, að þeir hefðu ekki mikil önnur störf en dómstörfin. Það var tekið fram í stjórnarskrárnefndinni hjer í þinginu, að til þess væri ætlast, að laun þeirra væru bætt, svo að þau yrðu sæmileg. Þess vegna er ekkert á móti því, að þessi launaflokkur sje tekinn út úr.

Að vísu þykir mjer brtt. háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fara nokkuð skamt, sjerstaklega um háyfirdómarann, en hefi þó ekki fundið ástæðu til að koma með brtt. á þessu stigi málsins.

Jeg held, að ekki sje rjett að vísa þessu til seinni tíma og segja, að ekki megi ákveða þessi laun fyr en almenn breyting verði gerð í launamálinu, því að jeg hygg það sannmæli, að þessi laun sjeu langlægst í samanburði við öll önnur laun, er landssjóður veitir embættismönnum sínum, þegar þess er gætt, hve staða þeirra er vegleg og vandasöm. Annars held jeg það áreiðanlegt, að af öllum dómurum sjeu yfirdómararnir langverst launaðir allra embættismanna, eftir því, sem til þessara embætta þyrfti að vanda og hefir verið vandað. Í það hafa valist góðir menn, en það er ekki Alþingi að þakka.

Þótt till. háttv. 1, þm. Skagf. (M. G.) fari mjög skamt, vil jeg þó vona, að ef frv. verður ekki samþ. óbreytt, eins og það kom frá háttv. Ed., þá verði það að minsta kosti samþykt eins og háttv. l. þm. Skagf. (M. G.) leggur til.