14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefði ef til vill freistast til að vera með þessu frv., ef öðru vísi hefði verið í garðinn búið, og það af þeirri ástæðu, að vjer eigum nú í landsyfirrjettinum mikilhæfa og góða menn, og þess vegna rjettmætt, að þeir hafi ekki lakari laun en aðrir starfsmenn þjóðarinnar. Frá þessu sjónarmiði tel jeg nokkuð mikla ástæðu til, að launakjör þessara manna væri bætt. En þar sem hjer á þingi er hins vegar á ferðinni dýrtíðaruppbót handa embættismönnum, sem eftir frv. frá Ed. er ætlað að ná til 4600 kr. launa, þá er þetta eitt út af fyrir sig ástæða fyrir mig til að vera móti frv. að þessu sinni, og sömuleiðis brtt. á þgskj. 877.

En annars vil jeg segja, að það er dálítið eðlilegt, að fram komi óánægja frá þeim embættismönnum, er hafa laun samkvæmt lögum, þar sem hins vegar er sífelt verið að auka við laun starfsmanna landsins, sem eru í fjárlögum. Líka má benda á, að ýmsir starfsmenn aðrir, sumpart í þjónustu landsins, og sumpart í þjónustu ýmsra „privat“-fjelaga, eða einstakra manna, eru allaf að fá laun sín hækkuð.

Þetta alt, samhliða því, að lífið verður dýrara, gerir það að verkum, að embættismennirnir eru sífell óánægðir með launakjör sín, og sú óánægja fer dagvaxandi. Mjer er líka sagt, að sá maður, sem landsstjórnin hefir nú nýlega ráðið til að standa fyrir landsversluninni, hafi 6000 kr. í laun. Þetta er ungur maður, en einmitt það gerir það að verkum, að hinir eldri finna, að þeir eru settir hjá, og eykur það óánægju þeirra. Stjórnin er líka sífelt að færa sig upp á skaftið með að auka laun manna í fjárlögunum. Jeg skal t. d. nefna vegamálastjórann. Hann hefir nú í laun samkvæmt fjárlögunum 3600 kr. og auk þess 400 kr. í persónulega launaviðbót. Þessi persónulega launaviðbót er svo til komin, að þingið 1915 veitti þáverandi vegamálastjóra, Jóni Þorlákssyni, hana, og þessi uppbót, 400 kr., er bundin við hans nafn. Hvað gerir svo stjórnin. Hún færir þetta þegjandi og hljóðalaust yfir á hinn nýja vegamálastjóra, þegar mannaskifti urðu, þrátt fyrir það þótt hún vissi, að þingið 1915 ætlaðist vitanlega ekki til þess, að þetta væri framhaldandi uppbót handa öllum vegamálastjórum. — Nokkuð líku máli gegnir með vitamálastjórann. Hans laun hafa líka verið hækkuð úr 3600 kr. upp í 4000 kr. með persónulegri launaviðbót. Með öðrum orðum, stjórnin reynir sífelt að færa launin upp, og það leiðir til þess, að hinir, sem enga hækkun fá, eru sífelt óánægðir með launakjör sín. Jeg segi þetta ekki til ámælis embættismönnunum; það er ofureðlilegt, að þeir fari það sem þeir komast. En jeg segi þetta til ámælis stjórninni. Jeg mun nú greiða atkvæði á móti þessu frv., ekki af því, að jeg telji þessa kröfu í raun og veru órjettláta, heldur af hinu, að jeg tel það óviðkunnanlegt að hækka laun embættismanna um leið og dýrtíðaruppbót er veitt af 4600 kr. launum og lægri.

Jeg skal svo ekki segja meira að sinni, en vildi víkja að þessum gerðum stjórnarinnar, sem mjer finst vera mjög athugaverðar, að jeg segi ekki vítaverðar.