14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (3054)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Hvað snertir það ákvæði stjórnarskrárinnar, að yfirdómendur megi ekki taka þátt í opinberum málum, þá gildir það ekki um hina núverandi yfirdómendur. Það er því ekki af þeim ástæðum, að núverandi yfirdómarar sitja t. d. ekki á þingi nú, heldur af einhverjum öðrum, hverjar svo sem þær eru. Enda munu yfirdómararnir allir hafa á hendi nokkur aukastörf, sem veita þeim allmiklar tekjur, þótt nokkuð mismunandi sje. Það er því alveg út í hött að vera að tala um þetta ákvæði stjórnarskrárinnar í sambandi við þá menn, er nú skipa yfirdóminn.

Hæstv. forsætisráðherra virðist leggja mjög mikla áherslu á, að frv. verði samþykt. Þetta þykir mjer dálítið skrítið, því að það virðist svo, sem það hafi einmitt nú, síðan þing kom saman, runnið upp fyrir honum, að það sje svo bráðnauðsynlegt að hækka laun þessara manna, því að ella mundi hann í nafni stjórnarinnar hafa komið í þingbyrjun fram með einhverjar tillögur um það að bæta úr þessari brýnu þörf. Jeg held því fram, að ef þessi breyting verður nú gerð, þá er öllum öðrum starfsmönnum landsins með því órjettur ger. Annars álít jeg það rjett vera, að yfirdómendur eigi að standa fyrir utan landsmáladeilur og að út frá því eigi að ganga, þegar laun þeirra verða ákveðin, að þeir hafi engin aukastörf á hendi.

Hvað við kemur skiftingunni á bæjarfógetaembættinu, þá er þetta tvent ekki sambærilegt. Starf þeirra, sem þar um ræðir, er miklu meira.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) kvað það, að vera að tala um breytingar þær, sem fyrir lægju að gera á launalögum í þessu sambandi, nokkuð svipað því, sem í vísunni stæði, sem hann fór með. Þessi ummæli verð jeg að álíta töluð til hæstv. stjórnar. Það er á hennar valdi, hve nær það mál verður lagt fyrir þingið.

Jeg hugsa, að meiri hluti nefndarinnar geti fallist á dagskrá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og greiði henni atkvæði.