10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

189. mál, frestun á skólahaldi

Kristinn Daníelsson:

Jeg er einn af þeim, sem eru hikandi í þessu máli og kvíða því, ef til þess kæmi að stöðva skólahald lengri eða skemri tíma vetrarins. Sjerstaklega skal jeg geta þessum tímatakmarkið, 15. febrúar, sem sett er í frv., að jeg tel rjettara að loka skólunum allan veturinn heldur en byrja skólakenslu á miðjum vetri. Mjer virðist margt mæla á móti því, að skólar sjeu opnaðir þá. Jeg skal nefna til dæmis kolasparnaðinn. Eftir miðjan febrúar byrja oft mestu kuldarnir, og þá eyðist mest af kolunum. Sumir segja að vísu, að þá megi fresta skólahaldi til fullnustu yfir veturinn, ef á þurfi að halda. En slík frestun mundi verða mörgum óþægileg, því að þeir, sem annars mundu ráða sig til hinna og annara starfa, mundu fresta því með hliðsjón af þessu.

Aðalástæðan, sem nefnd hefir verið til staðfestingar frv., er að spara kol í landinu. En mjer finst varhugavert að banna þeim skólum, með valdboði, að halda áfram starfsemi sinni, sem segjast vera að öllu leyti undir hana búnir. — Hins ber og að gæta, að þó að ekki sjeu eins mikil kol til í landinu og verið hefir undanfarin ár, þá mun sá kolaforði, sem til er, verða drjúgur vegna þess, að kolaverðið er orðið svo afskaplega hátt. Það liggur í augum uppi, að ekki verður keypt jafnmikið af kolum, sem kosta 50 kr. skippundið, sem þá er skippundið var selt á 3 kr. Jeg held, að allur þorri fátæklinga krókni fyr úr kulda en hann kaupi kolaskpd. á 50 kr. Mjer finst hart að leggja kenslubann á skóla, sem eru undirbúnir starfsemi sína í vetur. Nú hefir skólanefnd barnaskólans í Reykjavík sent mótmæli gegn þessu frv. Jeg hefi líka fengið svipuð mótmæli frá Flensborgarskóla og verið beðinn að bera þau hjer fram. Jeg skal lesa upp nokkrar línur úr mótmælum þessum, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er snertir skóla vorn, þá er svo ástatt, að til hans eru ráðnir kennarar og aukakennarar, eins og að undanförnu, og á allan annan hátt höfum vjer gert ráð fyrir skólahaldi frá 1. október — alt auðvitað í því trausti, eins og vant er, að stjórn og þing sjái skólanum fyrir nægilegu fje, og kunni rjettilega að meta gildi það og gagn, er svo góður alþýðuskóli hefir fyrir þjóðfjelagið. — Fyrir þennan skóla myndu því ekki sparast nein veruleg útgjöld næsta skólaár, þó að skólanum yrði lokað; það er að eins mismunur verðs á eldsneyti, og annað ekki — segjum 1500 krónur. En fyrir þann eina mismun væri vissulega hrapallegt óhapp að verða að loka skólanum, — gagnfræðaskóla með ca. 60 nemendum, sem hingað til hefir þó verið rekinn ódýrar en aðrir samskonar skólar hjer á landi“.

Þetta eru aðalatriðin í brjefinu.

Um hina ástæðuna, sem fram hefir verið færð með frv., að hætta á að stefna fólki saman, er það að segja, að jeg geri ráð fyrir, að aðstandendur nemanda sjái um, að ekki verði rasað fyrir ráð fram í þessu efni, og telji skynsamlega fyrirhyggju nauðsynlega, að því er til þessa kemur.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) gat þess, að ef leyfð væri undanþága á einum stað, væri og sjálfsagt að leyfa hana annarsstaðar. Jeg er hv. þm. (E P.) sammála um þetta. Jeg tel sjálfsagt, að þeim skólum sje leyft að halda áfram kenslu, þar sem aðstandendurnir eru við því búnir. Mjer er kunnugt um, að sumstaðar hefir verið ákveðið að leggja niður skólahald í vetur, og finst mjer, að slíkt ætti að verða leyft, án þess að þær kenslustofnanir yrðu sviftar þeim styrk, sem þær hafa notið, því að þær yrðu að sjá kennurum sínum fyrir kaupi eftir sem áður, enda mundi ráð fyrir gert, að þeir hefðu eftirlit með kenslu í heimahúsum. Jeg veit t. d, að á einum stað er kennari ákveðinn til eftirlits með heimakenslu.

Að öllu þessu athuguðu virðist mjer hyggilegast, að frv. þetta verði ekki látið fara lengra, heldur sje þá tekin upp aftur þingsályktunartillagan, og stjórninni gefnar frjálsar hendur um þetta mál.