10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (3063)

189. mál, frestun á skólahaldi

Magnús Kristjánsson:

Nálega helmingur þingmanna mun standa að þessu frv., og því má ætla, að það nái fram að ganga.

Jeg geri ráð fyrir, að hversu gjarnan sem þingið vildi, mundi það ekki geta tekið til greina óskir, sem fara í þá átt, að það skuli lagt á vald hlutaðeigandi hjeraðsstjórna, hvernig beri að haga sjer í þessu efni. Það er ekki eingöngu af sparnaðarástæðum, að sá hluti þm., sem er frv. fylgjandi, hefir fallist á þetta, heldur er það líka nokkurskonar bjargráðaráðstöfun, er byggist á því, að mönnum var ljóst, að bein vandræði standa fyrir dyrum, að því er til eldsneytis kemur.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir skýrt þetta mál svo rækilega, að jeg álít, að hann hafi haldið uppi svörum fyrir fylgismenn frv., og get jeg þess vegna verið stuttorður.

Þar sem svo er nú ástatt, að um 1000 smálestir þarf af kolum til þess að hita upp skólana, en hins vegar eldsneytisskortur fyrirsjáanlegur í landinu, virðist, að öllum ætti að vera það augljóst mál, að það gæti komið sjer vel að nota þennan litla kolaforða, sem til er, til einhvers, sem þjóðinni ríður meira á en skólahaldi. Það er t. d. með öllu ókleift að senda skip kringum landið í vetur án mikillar kolaeyðslu, og ekki er mjer ljóst, hvernig hægt er að senda skip til Vesturheims, ef ekki er hjer talsverður kolaforði fyrirliggjandi, því að ef þau ættu að flytja kol báðar leiðir, mundi skarð höggið í flutningsrúmið. Af þessum ástæðum verð jeg að álíta, að verði ekki til 10 til 20 þús. smálestir af kolum í landinu á haustnóttum, þá sje hreinn og beinn voði fyrir dyrum. Þetta er ein ástæðan.

En svo er líka önnur ástæða, sem rjettlætir þessa ráðstöfun. Og það er allmikill peningasparnaður, sem af henni mundi leiða. Þar til má telja sparnað á fje, sem varið er til styrktar nemendum. Það má reyndar segja, að þetta sje ekki mikið fje, en samt má taka það með. Enn fremur sparast bæjar- og sveitarfjelögum allmikið fje.

Þegar þess er gætt, að til skólahalds í Reykjavík er varið 50—60 þús. kr. árlega, og í öðrum kaupstöðum 10—20 þús. kr., þá má segja, að svo geti farið, að hlutaðeigendum fyndist þörf, áður en langt um líður, að verja þessu fje til annara hluta. Jeg geri ráð fyrir, að í vetur geti margir ekki framfleytt sjer og sínum, bæði vegna þess, að sumarið var óhagstætt og atvinna brást mörgum, og hins vegar af því, að margir munu ekki sjá sjer fært að halda uppi atvinnurekstri komandi vetur. Gæti þetta fje komið sjer vel í þarfir þeirra, sem verður að hjálpa úr voðanum. Þetta er mikilsvert atriði í mínum augum.

Margar fleiri ástæður mætti benda á, sem jeg finn ekki sjerstaka ástæðu til að fjölyrða um. Þó skal jeg geta þess, að jeg tel nauðsynlegt að fara mjög sparlega með þann litla kolaforða, sem til er, svo að ekki þurfi að stofna þessum fáu skipum, sem landsstjórnin ræður yfir, í þá hættu að sækja kol til Englands. Til slíkrar ráðstöfunar verður að minsta kosti að liggja einhver brýnni nauðsyn en sú, að koma í veg fyrir, að skólahaldi yrði hætt að einhverju leyti einn vetur.

En það, sem jeg hefi út á frumvarp þetta að setja, er það, að mjer finst það helst til rúmt í 2. gr., þar sem gefið er í skyn, að stjórnin geri ráðstafanir til þess að taka upp skólahald á miðjum vetri og sjái um skipaferðir kringum land um þetta leyti. Jeg álit rjettara, að þetta hefði frekar getað skoðast sem heimild, en ekki fyrirskipun um það, að skólum yrði haldið uppi síðari hluta vetrarins, en þetta mætti laga í meðferðinni.

Jeg býst við því, að ekki sjeu margir á sömu skoðun og jeg í þessu, en það verður að hafa það. Eitt hefir verið tekið fram í þessu máli; það er það, að kostnaðurinn sje ekki svo verulegur, að það þurfi að setja hann fyrir sig, og kemur það dálítið undarlega fyrir, hve lítið þarf til þessa rekstrar nú orðið, eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja; það er einsog það hafi minkað þörfina á ljósi og hita; maður verður að álíta, að fullkomins sparnaðar hafi ekki verið gætt að undanförnu, ef hægt er að komast af með svo lítið, sem nú er sagt, og er þá vonandi, að sparnaðar verði betur gætt í framtíðinni. Þá er eitt, sem vel er þess vert, að á það sje minst — þótt menn telji kostnaðinn lítilfjörlegan —, sem sje það, að fyrir fólk, sem þarf að ferðast til skólanna víðs vegar af landinu, verður ferðakostnaðurinn ekki lítill, ekki síst fyrir þá, sem þurfa að taka sjer far með skipum þeim, sem landsstjórnin hefir í ferðum kringum land. Svo er kostnaður sá, er leiðir af dvöl fólksins hjer í Reykjavík; verður hann ekki svo óverulegur fyrir hvern þann, er hingað kemur á venjulegum tíma og stundar nám fram á sumar. Jeg hygg, að menn muni ekki komast af með minna en 1500 krónur, eða vel það, að ferðakostnaði meðtöldum. Því fer nú betur, að margir menn eru svo vel efnum búnir, að þeir geta kostað börn sín í skóla, en jeg hygg, að allmargir sjeu, sem verða að leggja talsvert hart að sjer til þess að inna þetta gjald af hendi.

Af öllu þessu get jeg ekki betur sjeð en að það geti ekki talist illa farið, nje vera neinn voði fyrir landið, þótt skólahald að einhverju leyti leggist niður, en hitt, að þýðingarlaust sje að taka upp skólahald á miðjum vetri, get jeg alls ekki fallist á. Það var háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), sem sagði, að það væri fyrst á miðjum vetri, sem þörf væri á upphitun, en jeg tel liðinn hálfan harðindatímann þegar komið er fram í febrúar. Þegar komið er fram í miðjan febrúar, þá getur maður ekki gert ráð fyrir stöðugum frosthörkum þar á eftir, nema þá í afskaplega hörðum vetrum, og þótt mönnum virðist það óviðeigandi að sleppa öllu skólahaldi, þá gæti svo farið, að komandi vetur yrði eins og veturinn 1880—1881, að menn fengi að sjá, hvers virði það væri að fara sparlega með vöru, sem nú er erfiðast að fá og hefir 15-faldast í verði frá byrjun ófriðarins.