10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (3069)

189. mál, frestun á skólahaldi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mig langaði aðeins til þess að gera stutta athugasemd, til þess að lýsa afstöðu minni til þessa máls, en jeg mun ekki hirða um að svara ýmsu af því, sem fram hefir komið í umræðunum hjer í dag, en ef til vill væri þó ástæða til þess að drepa á.

Mjer skilst það vera rjett leið, sem hv. Ed. hefir valið, að afgreiða þetta mál í frumvarpsformi. Hins vegar skal jeg taka. það fram, að hvort sem frv. verður samþykt, eða ákveðið verður að halda skólunum áfram í vetur, þá mun jeg beygja mig undir gerðir þingsins. Jafnframt og jeg tek þetta fram, vil jeg geta þess, að mjer virðist afstaða þingsins að sjálfsögðu verða að miðast við það ástand, sem nú er. Eftir því, sem jeg veit best til, þá munu vera til um 2500 tonn af kolum, og jeg. geri ráð fyrir, að í flestra augum muni það þykja litlar birgðir. Og þegar nú er athugað, hvaða tímar eru, þegar hvert vandamálið rís upp á eftir öðru, þá er ekki altaf hægt að fara þá leiðina, sem hagkvæmust þykir, heldur verður að vega vandræðin og taka þá leiðina, sem minstur bagi hlýst af. Nú er kolaforðinn eins lítill og jeg hefi minst á, og honum þarf að verja til þess að fleyta skipum okkar og til nauðsynlegustu eldamensku og upphitunar, og hygg jeg, að naumast muni þykja gætilegt að setja meira á hann. Jeg skil það mjög vel, að kennarar og aðrir, sem að skólunum standa, líta aðallega á skólahlið málsins. En mjer finst eðlilegt að gera þá kröfu til þeirra manna, sem trúað er fyrir því að fræða æskulýð landsins, að þeir sýni þá gætni og stillingu að líta á fleira en þessa einu hlið, ekki síður en aðrir. Því að hliðarnar eru áreiðanlega fleiri. Og þó að allir sjeu sammála um það, að sem minst stöðvun megi eiga sjer stað í uppfræðslu æskunnar, þá verður það þó að víkja þegar þjóðarnauðsyn krefur annars vegar.

Jeg er þess fullvís, að ef afráðið verður að halda skólunum áfram í vetur, og svo kemur að því, að kol vantar til nauðsynlegrar notkunar, þá mun almenningur hjer í bæ rísa upp og átelja þá, sem ábyrgðina bera í þessu efni, fyrir að hafa farið illa að ráði sínu, er þeir höfnuðu því meir nauðsynlega fyrir það minna nauðsynlega. Jeg þekki mjög vel óróann, sem nú er í þessum bæ, en af því að mjer hefir ávalt verið bærinn mjög kær, þá er mjer óljúft að stuðla að neinu, sem gæti orðið honum til stórskaða. Og þegar jeg stend hjer í þeirri stöðu, sem jeg er í, og finn til ábyrgðarinnar, sem henni er samfara, þá vegur það meira í mínum augum, að skylt sje að tryggja landið fyrir voða, en að reyna að halda skólunum áfram, ef því fylgir stórhætta. Auk þess ber þess að gæta, að frestun á skólahaldinu er ekki sama sem að leggja niður alt nám. Það er ekki rjett, sem sagt var í hv. neðri deild, þegar þingsályktunartillagan um sama mál var þar til umræðu, að með þessu mistu menn eitt ár úr lífi sínu. Jeg vildi sístur manna verða til þess að stela ári úr lífi nokkurs manns, en sannleikurinn er sá, að engin ástæða er til, að skólahaldsfrestunin geri það. Duglegir menn geta hæglega lesið heima þennan tíma, sjer að fullu gagni, og tekið sín próf í vor, eins og vant er. Svo er það að minsta kosti um nemendur í Mentaskólanum, og svo mun víðar vera. En, eins og jeg hefi drepið á, þá er kolaspursmálið aðalatriðið fyrir mjer í þessu máli. Og í sambandi við það má minna á það, að með því kolaverði, sem nú er, 50 krónur skippundið, þá sjá allir, að menn, sem eiga að sækja skóla hingað, hljóta að eiga við mjög erfið kjör að búa. Jeg lít svo á, að rjettara sje fyrir menn að búast ekki við, að þessi vetur verði neinn sólskinsvetur hjer í bænum. Sveitirnar munu vafalaust eiga ólíkt betri aðstöðu, og held jeg því, að hyggilegra sje að veita straumunum sem mest til sveita heldur en úr sveitunum til bæjanna. Jeg get vel ímyndað mjer, að menn, sem þekkja ekki til, hve dýrt er að lifa hjer, muni komast að því fullkeyptu áður lýkur, ef þeir senda syni sína og dætur hingað í vetur. Þá er enn eitt atriðið, sem vert er að minnast á, og mjer er vel kunnugt um frá bæjarfógetastarfi mínu hjer í bænum. Það er húsnæðisleysið, sem þegar er orðið mjög alvarlegt og naumast batnar, ef straumunum yrði veitt hingað í stórum stíl. Jeg hefi áður minst á það hjer í hv. deild, hve hörmulegar ástæður eru hjer hjá ýmsu fólki sökum húsnæðisskorts. Mjer hefir oft blöskrað að horfa á það. Jeg get t. d., nefnt næsta hús við íbúð mína, svo kallað Melkot. Þar eru húsakynni svo aumleg og rottugangurinn svo mikill, að ungbörnum er jafnvel hætta búin.

Jeg ætla svo ekki að segja meira alment um málið, en mun greiða frv. atkv. mitt. Jeg verð að miða við ástandið eins og það er nú, eins og jeg hefi minst á. Hvað frestunina snertir, þá mætti ef til vill athuga það nánar, hvort heppilegt sje að miða hana við það, sem gert er í frv.

Eins og jeg hefi drepið á þá er mjer fullkunnugt um óróa þann, sem nú á sjer stað í bænum. En jeg vildi óska, að menn yfirveguðu það, að vel getur svo farið, að vandræðin aukist miklu meir en menn hafa búist við. Erfiðleikarnir við að draga til landsins aukast stöðugt, og væri æskilegt, að það væri haft í huga, þegar ákvarðanir eru teknar um þetta mál. Menn gera háar kröfur til þings og stjórnar, en það eitt nægir ekki. Menn verða að læra að gera kröfur til sjálfra sín. Menn verða að læra að sleppa ýmsu, sem þeir hafa veitt sjer hingað til; menn verða að læra að sýna sjálfsafneitun. Ógerningur er að hugsa sjer að lifa eins og á venjulegum tímum. Ef mönnum gleymist þetta, þá er hætt við, að illa geti farið. Og svo gæti ástandið orðið í þessum bæ. Jeg vona, að það verði samt eigi úr, að skólahaldsfrestun um stuttan tíma verði skoðuð sem hjegómi hjá öðru verra.