10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

189. mál, frestun á skólahaldi

Magnús Kristjánsson:

Jeg býst ekki við að fjölyrða svo í þetta sinn, að málið geti ekki orðið afgreitt á rjettum tíma. En hins vegar hefði jeg kunnað betur við, að mjer hefði ekki verið eins skamtaður tími og gert hefir verið, þar sem margir háttv. þm. og hæstv. forsætisráðh. hafa sýnt mjer þann heiður að vitna svo freklega í orð mín. Jeg vil þá beina orðum mínum að hæstv. forsætisráðherra. Í raun og veru kom ekkert nýtt fram í ræðu hans, að öðru leyti en því, að hann reyndi að vefengja orð mín um kostnaðinn við vetrardvöl nemenda hjer í Reykjavík. Í öðru lagi bar hann mjer skilaboð frá kjósendum sínum um það, að þeir væru á annari skoðun en jeg í þessu máli. Jeg er honum þakklátur fyrir að flytja þessi skilaboð. En jeg býst við því, að kjósendur mínir sjeu svo þroskaðir, að þeir skilji, að það er fyrst og fremst sannfæring mín, sem ráða á atkvæði mínu.

Þrátt fyrir þær upplýsingar, sem hæstv. forsætisráðherra hefir gefið um verð á fæði og húsnæði hjer í Reykjavík, hygg jeg, að kostnaðaráætlun mín standi óhrakin, og ekki síst ef nemendur utan af landi þyrftu að ferðast langar leiðir með skipum landsstjórnarinnar. Fargjöld þau, sem stjórnin hefir leyft sjer að setja hjer á milli hafna, myndu talsvert stuðla að því, að reikningur minn verði nærri sanni. Dæmi þau, er hann tók, hygg jeg vera undantekningar. Jeg hygg, að fæði og húsnæði muni ekki fást undir 75—85 kr. á mánuði, og auk þess þurfa menn að greiða þjónustu o. fl.

En það er eitt atriði, sem er þýðingarmikið í þessu máli, og það er, að hæstv. stjórn hefir látið uppi skoðun sína á málinu, og skoðanir hennar eru mjög skiftar. Hæstv. forsætisráðherra álítur, að það sje hættulegt að takmarka skólahaldið, en hæstv. fjármálaráðh. (S.E.) telur aftur á móti, að brýna nauðsyn beri til þess, en um skoðun hæstv. atvinnumálaráðherra get jeg lítið sagt; það lítur helst út fyrir, að hann hallist til beggja hliða, og því ekki unt að segja um afstöðu hans. Það er því mikilsvert, að þingið ákveði, hvort skólahald verður í vetur eða ekki; stjórnin kæmist í mesta ráðaleysi, ef hún ætti að gera það.

Vegna þess, að tíminn er takmarkaður, þarf að slíta fundi nú strax, þá verð jeg að fresta að svara einstöku þingmönnum til þess síðar.