12.09.1917
Neðri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

189. mál, frestun á skólahaldi

Forsætisráðherra (J. M.):

Að svo stöddu skal jeg ekki halda langa ræðu í þessu máli. Mál þetta var rætt svo ítarlega í þessari hv. deild fyrir skemstu, að eigi er þörf að fara inn á efni þess.

Að eins skal jeg leyfa mjer að taka það fram, að mjer skildist aðalástæðan fyrir frv. í hv. Ed. skortur kola og eldsneytis í landinu, og svo einnig hitt, að ekki væri rjett, á þessum tímum, að stuðla að því, að fólk þyrptist hingað til Reykjavíkur, til að stunda nám.

Um eldiviðarskortinn er það upplýst síðan, að það er ekki hættulegt atriði. Skólar víðsvegar á landinu eru búnir að birgja sig upp að eldsneyti, að miklu leyti innlendu, og síðan frv. var samþ. í Ed. hefir bæst mikið við af erlendum kolaforða. Hafa komið hingað um 1000 tons með nýkomnum skipum. Svo að þótt eitthvað hafi verið til í þessari ástæðu, er frv. var samþ. í Ed., er mjög dregið úr þeirri ástæðu nú.

Um hitt atriðið, að fólk þyrpist hingað til bæjarins, er það að segja, að það atriði hefir aldrei snert nema örfáa skóla og örfáa menn, og hefir aldrei verið á rökum bygt.

Annars tel jeg hreinasta óþarfa að fara mikið út í þetta mál. Deildin hefir rætt það áður og þá gengið skynsamlega frá því.