13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Frsm. (Hannes Hafstein):

Jeg vil leyfa mjer að leiða athygli háttv. þm. strax að því, að láðst hefir við prentunina á brtt. nefndarinnar að geta þess, að falla skuli niður síðasta málsgrein 10. gr frv.

En það leiðir af öðrum breytingum, sem nefndin hefir gert, að málsgrein þessi falli burt, og vona jeg, að lagfæra megi misfellur þessar við hreinprentun frv., án þess að komið sje með brtt. um það.

Annars eru breytingar nefndarinnar mest formlegs efnis. Þær eru allumfangsmiklar að ytra áliti, en frá efni frv. er þar ekki vikið svo að um muni.

Nefndin hefir lagt það til, að 1., 2. og 3. gr. frv. verði slengt saman í eina grein, og álítur hún, að í henni felist alt, sem segja þarf.

Hjer er um svo lítil laun að ræða, að ekki þótti þörf að búa til langan lista yfir launamismuninn, þótt ýmist sje 10 kr. meira eða minna. Slík flokkun er

ekki heldur í samræmi við önnur lög, sem ákveða slíka þóknun til annara starfsmanna.

Nefndin hefir því lagt til, að hreppstjóri fái í þóknun 80 kr. þar sem íbúatalan fer ekki fram úr 300 manns, og skal þóknun þessi hækka um 5 kr. fyrir hverja 5 tugi íbúa, sem umfram eru 300.

Þetta er ekki stórvægileg breyting og fer ekki fram á mikla hækkun. Skiftir ekki nema 5 kr. að neðan og mest 30 kr. í fjölmennustu hreppunum. En breyting þessi gerir reglurnar miklu einfaldari.

Brtt. 2. er líka samsteypa úr 5. og 6. gr. frv., en það, sem stendur í 4. gr. frv., er fært aftur þannig, að reglurnar um ferðakostnað og dagpeninga komi á eftir reglunum um gjöld fyrir sjerstök verk hreppstjóra. Þótti það betra en að láta reglur þær koma í miðjum klíðum, og verða svo altaf að skírskota til þeirra, eins og gert er í frv. á einum 5 stöðum. Álít jeg, að breytingar þessar geri lögin aðgengilegri fyrir þá, sem eiga að fylgja þeim og læra þau.

Þá hefir nefndin leyft sjer að bæta við nýrri grein, sem gleymst hefir við samningu frv. Það er ákvæði um skoðun skipaskjala. Er það tekið úr lögum frá 14. febr. 1902.

Getur það ekki talist nein breyting frá gildandi lögum.

Af breytingum þessum leiðir það, að greinatala frv. hlýtur að breytast. Vona jeg, að rjett sje með það farið í brtt. nefndarinnar. En sje svo, að gallar finnist, þá má leiðrjetta það við hreinprentun frv.