04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (3093)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Þórarinn Jónsson:

Eins og jeg tók fram, þegar þessi tillaga kom fram hjer í háttv. deild, þá voru ástæður okkar flutningsmanna þær að spara bæði fje og fækka milliliðum. Jeg gat þess þá um leið, hvort ekki gæti komið til mála að hafa kaupmenn og kaupfjelög fyrir milliliði. En þetta hefir nú verið æði lengi á leiðinni, því að ekki færri en 628 þgskj. hafa verið prentuð síðan háttv. bjargráðanefnd fjekk tillöguna til meðferðar. Háttv. bjargráðanefnd bauð okkur flutnm. að vera á fundi hjá sjer í eitt skifti. Og þá upplýstum við, samkvæmt frjettum frá sýslumönnum úti um land, að við svo búið mætti ekki standa lengur, og nefndum í því sambandi sýslumann Húnvetninga. Hann hefði upplýst það, að greiðsla á andvirði varanna teptist, þegar mönnum væri gert að skyldu að borga vörurnar þegar í stað, og af því leiddi auðvitað, að þeir yrðu neyddir til að taka lán, sem líka þryti. Það gæti því komið til mála, hvort ekki væri heppilegra að láta kaupmenn og kaupfjelög fá vörurnar, og þeir legðu ekki meira á þær en það minsta, sem hægt væri. Ef við lítum dálítið nánar á þetta, þá eru nú vextir af lánum 6%, og auk þess hefi jeg heyrt sagt, að sýslumenn fengju 2%. Þarna eru þá komin 8%, sem kaupandi verður að borga af vörunni. Auk þess er aðgætandi, að sparisjóðir geta ekki lánað takmarkalaust; þeir hljóta að þverra áður en varir. Þetta er því atriði, sem verður vel að taka til greina. En af því, sem hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (Þorst. J.) tók fram, þá hefir nefndin ekki litið á þetta, en álitið, að sýslumenn væri óhjákvæmilegir milliliðir. Það, sem veldur því, átti þá að vera greiðslan á andvirðinu, og svo það að fá að vita, hvað hrepparnir þyrftu.

Hvað snertir greiðslu á andvirðinu, þá fæ jeg ekki skilið annað en að sveitunum ætti að vera fullvel trúandi fyrir því. Sveitarsjóðir standa þar á bak við, og ef stjórnin æskti þess, þá gæti hún heimtað frekari tryggingu fyrir greiðslunni. Það mætti heita undarlegt, ef það væri eina tryggingin sem nægði, að sýslumenn væru við það riðnir.

Hvað hinu viðvíkur, að það væri óþægilegt fyrir stjórnina að fá að vita, hvað menn þyrftu, með öðru móti, þá hefir það við ekkert að styðjast, því að síðan birgðakönnun var gerð í vor veit landssjóðsskrifstofan, hvað hver sveit hefir fengið, og getur því sjeð í hendi sjer, hvað hver sveit þarf. Þá hefir enn fremur verið talað um það, að þetta væri svo mikið umstang fyrir sveitastjórnirnar. En þar til er því að svara, að þetta umstang minkar ekki þótt sýslumennirnir sjeu, því að þeir gera ekkert annað en að afgreiða pantanir á vörunni, skifta henni milli sveitarstjórna og taka á móti borgun. Eins og jeg hefi tekið fram þá mætti sem best hafa einn mann fyrir þær sveitir, sem eiga sókn að sama kauptúni, til þess að panta vöruna, taka á móti henni og skifta henni, og myndi kostnaður við það vera alveg hverfandi. Og þá sje jeg ekki betur en sýslumenn sjeu orðnir óþarfir milliliðir.— Þá er till. um það að vísa þessu til stjórnarinnar. Það er auðvitað einskonar traustsyfirlýsing til hennar. Og má vera, að hún eigi það skilið fyrir þessa landssjóðsverslun. En það munu þó ekki allir vera á einu máli um, að til þess sjeu fullgildar ástæður. Að minsta kosti virðist það vera á allra vitorði, að þessi verslun hafi ekki gengið sem best, og að reikningar væru ekki enn þá lagðir fram fyrir þingið. Endurskoðari landsverslunarinnar hefir sagt mjer, að reikningsárið væri frá 1914 til apríl 1916, og að ágóði mundi láta nærri 300 þús. kr. En reikningsfærslan á þessu væri þó ekki í því lagi, að hún þætti frambærileg. Jeg er hræddur um, að hjeraðsstjórnir hefðu eitthvað að athuga, ef slíkt kæmi fyrir hjá sveitarstjórnum úti um land. Enn fremur hefir þessi sami maður sagt mjer, að sumt væri þannig farið í þessari verslun, að stjórnin vissi ekkert um það. Og ekki er þetta til meðmæla því að vísa málinu til stjórnarinnar. Það má enn fremur geta þess, eftir því, sem nú er fram komið um „fragt“ á vörum stjórnarinnar kringum land, sem fyrirspurn er komin um inn í þingið og hæstv. atvinnumálaráðherra hefir ekki sagst geta gert fulla grein fyrir eða vita um, að það geti ekki heldur talist sem ástæða fyrir því, að leggja málið í hendur stjórnarinnar. Jeg held því, að það sje ekki sú rjetta aðferð, ef stjórnin ekki vill lagfæra þetta, heldur eigi þingið að ganga algerlega frá þessu máli.