04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (3094)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Atvinnumálaráðherra:

Þegar þetta mál var hjer til umræðu fyrir alllöngum tíma, þá ljetu hv. flutningsmenn till. það í ljós að þeir vonuðu, að tillagan frá mjer, um það að vísa málinu til nefndar, væri ekki gerð í þeim tilgangi að svæfa málið. Jeg svaraði því auðvitað á þá leið, að svo væri ekki. En nú er komið álit bjargráðanefndar, þótt seint sje, og gengur það í þá átt, að málinu verði vísað til stjórnarinnar. — Þótt það sje nú hálfgert örþrifaráð, sem er sama sem að þingið geti ekkert við það átt, þá hygg jeg þó, og tilfæri þar síðustu orð hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að þær umræður, sem hjer fara fram um málið, geti orðið talsverð leiðbeining fyrir stjórnina. Og þótt aldrei nema bæði hv. sami þm. (Þór. J.) og aðrir hafi fundið margt að athuga við landsverslunina, þá hygg jeg þó, að stjórnin sje ekki svo horfin öllu trausti, að menn trúi henni ekki til að liðka þetta eins og hægt er. Hv. þm. Borgf. (P. 0.) taldi sýslumennina vera óþarfa milliliði, og að nú horfði málið alt öðruvísi við. Og er það rjett athugað, að málið horfir nú ekki að öllu eins við og í byrjun. En við vitum ekki, hvernig málið kann að horfa við í framtíðinni. Fyrirkomulagið er bygt á grundvelli sveitarstjórnarlaganna, og því fyllilega lögmætt, og enn getur harðnað svo um, að varasamt sje að yfirgefa þann grundvöll. — Hitt er annað mál, hvort ekki mætti gera fyrirkomulagið nokkru auðveldara en í byrjun, svo að mjög nálgaðist það, sem fyrir mönnum virðist vaka í þessu efni. Það mætti t. d. haga því svo, að einstakir hreppar gætu fengið meðmæli hjá sýslumönnum fyrir vöruafhendingu til alllangs tíma, enda alt til 6 mán. í senn; þá ætti þetta margnefnda „umstang“ ekki að verða mjög mikið, en grundvöllurinn raskaðist þó eigi. Hvað það snertir, sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði um, að kaupmenn og kaupfjelög fengju vörurnar til úthlutunar, þá hefir ekkert verið því til fyrirstöðu frá stjórnarinnar hálfu. En að eins vil jeg taka fram, að úthlutunarkostnaður eða verðhækkun mætti þá ekki fara hærra en 10%. Annars skilst mjer, að sveitarfjelögin sjeu sjálfráð um, hvaða aðferð er notuð við úthlutunina. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þetta megi liðka í hendi sjer. Jeg efast ekki um, að verslunarskrifstofan muni taka allar sanngjarnar óskir manna í þessa átt til greina, og að þessar umræður um málið þoki því einmitt í þá átt, sem æskilegt er. Þar sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði um reikninga landsverslunarinnar og „fragt“, og annað þess háttar, þá sje jeg ekki, að það komi þessu máli beint við, og fer því ekki út í þá sálma við umræðurnar um þetta mál.