04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (3098)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Sveinn Ólafsson:

Mjer virðast skoðanir hv. bjargráðanefndar nokkuð skiftar um það, hvort till. á þgskj. 40 sje frambærileg eða ekki, hvort hún bindi hendur landsstjórnarinnar oftast eða ekki. Meiri hl. kemst að þeirri niðurstöðu, að hún bindi oftast, og er jeg á því, að hann hafi nokkuð til síns máls. Því að þótt jeg hefði tilhneigingu til að greiða till. alkvæði mitt, þori jeg það ekki fortakslaust. Staðhættir hjer á landi eru svo breytilegir, að það, sem á einum staðnum er heppileg tilhögun, er óheppileg tilhögun á öðrum, og verður að haga sjer eftir því. Af því, að sumstaðar hefir reynst óheppilegt, að sýslumenn hefðu umboð á landssjóðsvöru úti um land, hefir þessi tillaga komið fram, að fela sveitarstjórnum þessa umsjón. En, eins og jeg hefi sagt, á þetta ekki við alstaðar, og ber að haga sjer í því efni eftir staðháttum. Nú hefir bjargráðanefndin, meiri hl., komist að þeirri niðurstöðu, að till. þessa beri ekki að samþykkja, en fela stjórninni að ráða fram úr þessu. Er sú leið ekki að öllu leyti fráleit, en mjer finst ekki sama, á hvern hátt stjórninni er falið þetta. Að fela henni fyrirvaralaust að láta sveitarstjórnir þær, er hlut eiga að máli, annast útbýtinguna, tel jeg ekki rjett. En ekki vil jeg heldur láta niður falla kröfu sveitarstjórna til að hlutast til um þetta. Það er vafalaust, að það hefir víða bakað mönnum mikinn erfiðisauka og kostnað að fá vörurnar fyrir milligöngu sýslumanna, og gersamlega óforsvaranlegt að láta slíkt fyrirkomulag haldast þar, sem staðhættir eru slíkir.

Af því nú, að jeg get annars vegar ekki fallist á að útiloka sýslumenn, og virðist hins vegar niðurstaða meiri hl., um að vísa málinu til stjórnarinnar án frekari fyrirsagnar, altof óákveðin, og hvorug tillagan því líkleg til góðra úrslita, dettur mjer í hug að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti að stjórnin gæti þess að torvelda ekki viðskifti sveitarfjelaga úti um land við landssjóðsverslunina, með óþörfum milliliðum og þunglamalegri afgreiðslu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.