04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (3101)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Magnús Pjetursson:

Hv. frsm. (Þorst. J.) talaði mjög á sömu leið og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Þeir voru báðir á því máli, að ekki væri fært að binda stjórnina við að láta sveitarstjórnirnar annast móttöku og afhendingu varanna. Hjer er nú ekki um neitt þess háttar að ræða, en þótt svo væri, að binda ætti stjórnina við að fylgja föstum reglum, þá ætti stjórnin að vera þakklát fyrir, að það væri gert, svo að stjórnin gæti vitað með vissu, hvað þingið vildi að hún gerði. Hún gæti þá skelt skuldinni á þingið, ef illa færi. Það er sem sje ekki því að leyna, að það er nú alment álit manna, að framkvæmdir stjórnarinnar viðvíkjandi landsjóðsversluninni hafi verið fálm eitt, en væri nú stjórnin bundin við vissar reglur, þá gæti hún skelt allri skuldinni á þingið. Þess vegna finst mjer, að hún megi vera þakklát.

En nú er ekki um það að ræða að binda stjórnina neitt. Henni mun vera það innan handar að útvega umsögn sýslunefndaroddvitans um hag sveitarstjórnanna, og kemur þá alt í sama stað niður, því að þá hefir stjórnin sömu tryggingu og vissu sem sýslumaðurinn fyrir vörum þeim, sem hún lánar.

Hv. frsm. (Þorst. J.) sagði, að við settum aðallega fyrir okkur kostnaðarhliðina. Það er ekki rjett. Aðalatriðið í þessu máli er það, að verði tillagan samþykt, þá eiga sveitirnar hægra með að ná í vöruna en áður. Það getur sem sje oft komið fyrir, að pantanirnar komi ofseint til stjórnarráðsins, ef þær þurfa fyrst að ganga í gegnum hendur sýslumanna. Sömuleiðis er það ástæða fyrir okkur, að það eru margir, sem álíta, að úthlutunin hjá sýslumönnunum hafi ekki altaf verið sem rjettlátust, nje eftir þörfum eingöngu.

Þá var líka um það talað, að sveitarstjórnirnar ættu óhægra með að geyma vörurnar heldur en sýslumennirnir. Jeg veit nú ekki til, að sýslumennirnir eigi nein vörugeymsluhús. Jeg býst við, að þeir komi vörunum til geymslu hjá kaupmönnum, og jeg skil ekki í því, að þeir muni ófúsari á að geyma vörumar fyrir sveitirnar heldur en fyrir sýslumennina. En þegar nú alt er undir kaupmönnunum komið með geymslu á vörunum, með uppskipun og jafnvel úthlutun og borgun, þá leiðir það af sjálfu sjer, að hentugast væri að fela þeim afhendingu varanna.

Jeg get ekki skilið röksemdafærslu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þar sem hann var að tala um, að sumar sveitarstjórnir gætu verið svo illa staddar, að þær gætu ekki borgað vörurnar. Jeg sje ekki, að þær geti þá fremur borgað sýslumönnunum vörurnar en landsstjórninni.

Hvar ættu annars þær vesalings sveitarstjórnir að fá vörur til matar, ef þær fást ekki frá landsstjórninni?

Dagskrá sú, sem hjer er fram komin, fer að vísu mikið í sömu átt og tillagan sjálf, og mætti jeg því vel við una, þó að hún yrði samþykt, en þar stendur: „í því trausti“, og nú ber jeg alls ekki það traust til stjórnarinnar, að hún fari nokkuð eftir þessu, og finst mjer jeg ekki hafa ástæðu til þess, eftir því sem á undan er gengið. Nei, ef nokkuð á að duga, þá verður að skipa henni.