04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (3102)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Sigurður Stefánsson:

Það var ekki meining mín, að sveitirnar ættu ekki að fá neinar vörur, ef þær væru ekki borgunarfærar. Jeg tók þetta einungis fram til þess að sýna, að það gæti valdið stjórninni óþægindum, ef þessi till. yrði samþykt.

Annars skal jeg taka það fram, í viðbót við það, sem jeg hefi áður sagt, að mjer þætti best, ef kaupmenn og kaupfjelög vildu taka að sjer úthlutun varanna. En áður en jeg samþykki nokkrar vissar reglur fyrir stjórnina verð jeg að fá að vita, hvort kaupmenn og kaupfjelög eru alment fús á að takast á hendur þessa afhendingu. Jeg vil alvarlega brýna það fyrir stjórninni, að hún hagi sjer eftir kringumstæðunum í hverju einstöku tilfelli, og neiti ekki hreppsnefndunum um að fá vörur beina leið, ef hún hefir ekki til þess því meiri ástæðu.

Það er alveg rjett, að orðrómur hefir gengið um það, að úthlutun sýslumannanna væri ekki ávalt rjettlát. Jeg hefi fyrir löngu heyrt þann orðróm, en veit ekki, hvort hann er á rökum bygður.

Jeg skal svo ekki ræða þetta frekar. Jeg verð að vera á því, að stjórnin hafi óbundnar hendur í því, hvort hún sendi sveitarstjórnunum vörurnar beint eða í gegnum sýslumennina.