04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í C-deild Alþingistíðinda. (3105)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg get verið hæstv. atvinnumálaráðherra þakklátur fyrir, að hann tók ekki óliðlega í þetta mál. Það var á honum að heyra, að hann hafi um langan tíma litið svo á, að þetta fyrirkomulag í landssjóðsversluninni hafi ekki verið heppilegt eða hagkvæmt. En fyrst að svo er, undrar mig, að stjórnin skuli endilega vilja halda dauðahaldi í það. Hann taldi, að af þessu hlytist ekki mikil fyrirhöfn fyrir hreppsfjelögin, ef vörurnar væru afhentar í einu til langs tíma, t. d. 6 mánaða. Áður hefir það nú gengið svo til, að ekki hafa verið afhentar vörur nema til nokkurra vikna í senn. Þótt svo væri, að birgðir landssjóðs væru nú svo miklar, að þetta væri hægt, þá er ekki víst, að altaf verði svo. Eins er það um sveitarstjórnir, sem fengið hafa sendar vörur til sín, fyrir milligöngu sýslumanna, að þær fá ekki reikninga yfir vöruna fyr en eftir dúk og disk.

Sýslumönnum eru sem sje sendir reikningarnir, en þeir hafa oft ekki sent þá fyr en seint og síðar meir til sveitarstjórnanna. Þetta getur oft komið sjer illa þegar úthluta þarf vörunum strax og taka borgun út í hönd.

Í þessum tilfellum verður því að gera nýja rekistefnu til þess að fá vitneskju um verðið, annaðhvort með því að síma til sýslumannsins, sje hann þá við látinn, eða á verslunarskrifstofuna, ef um símasamband er þá að ræða.

Ef það ráð væri tekið að láta kaupfjelög og kaupmenn afhenda vörurnar, þar sem sveitarstjórnirnar geta ekki skift beint við verslunarskrifstofuna, þá virðist allsendis óþurft, og lítt í anda þeirrar stefnu í verslunarmálum, sem meir og meir er að ryðja sjer til rúms hjer á landi nú á síðari árum, að vera samt sem áður að blanda sýslumönnum þar inn í, með öðrum orðum, að hafa þar tvo milliliði, sem hægt er að komast af með einn.

Hvað því víðvíkur, að sýslumenn sjeu nauðsynlegir milliliðir vegna vörubirgða sveitanna, sem hæstv. forsætisráðherra sagði að stjórninni væri ókunnugt um, þá get jeg ekki fallist á, að það sje rjett. Nú er búið að safna skýrslum um vörubirgðir, og munu þær niður komnar hjá verslunarskrifstofunni. Þar ætli því altaf að vera hægt að segja með vissu um vöruforða sveitanna.

Í sambandi við dæmi úr Árnessýslu, sem jeg nefndi, um örðugleika þá, sem á því gætu verið að ná til sýslumanns, þá skaut hæstv. atvinnumálaráðherra því fram, að það gæti verið af því, að sveitarstjórnirnar hefðu ekki mannrænu í sjer til þess að ná í sýslumann. þetta eru lítt viðeigandi ummæli, því að sveitarstjórnunum hafa óneitanlega verið gerðir margir óþarfa örðugleikar í viðskiftum sínum við landssjóðsverslunina, en það mætti kannske snúa þessu við og segja, að það sje furðulegt, að sveitarstjórnirnar skuli ekki hafa haft mannrænu í sjer til þess að gera gangskör að því, að það sje ekki verið að því að gera landssjóðsverslunina að fjeþúfu fyrir sýslumennina Hvort sem till. verður samþykt eða ekki, þá vænti jeg, að hæstv. stjórn taki það til íhugunar, og geri gangskör að því að losa sveitarstjórnir við milligöngu sýslumanna.

Forsætisráðherra taldi það mesta tryggingu fyrir stjórnina, að sýslumenn annist innheimtuna. Jeg held, að nokkuð mikið sje úr þessu gert. Með allri virðingu fyrir sýslumönnum, hefi jeg ástæðu til að halda, að sveitarstjórnirnar sjeu þar ekki óábyggilegri. Eins og nú er borga þær við móttöku, enda veit jeg ekki betur en að sýslumenn krefjist þess. Það eru nú svo sem dæmi fyrir því, að það getur út af borið hjá sýslumönnum, ekki síður en sveitarstjórnum, og jeg man ekki betur en að nýsamþykt fjáraukalög beri þess órækan vott, að út af þessu geti borið hjá þeim hærri stjórnarvöldum.

Jeg held fast við þá ósk, að þingsál.till. á þgskj. 40 verði samþykt, og fæ ekki sjeð, að stjórninni væri þar með bundinn baggi, sem hún þurfi neitt að kveinka sjer við.