18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (3115)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg sagði þessi fáu orð áðan til þess, að deildinni yrði ljós mín skoðun. Jeg ætla mjer ekki að fara í kappræður um þetta mál, vil að eins víkja að sárfáum atriðum í ræðu framsögumanns (G. Sv.).

Hann furðaði á, að stjórnin, eða rjettara sagt jeg, gæti komið fram með frv. um einkasölu á steinolíu, þar sem jeg er á móti kolaeinokun. Jeg færði áðan mjög greinilegar ástæður fyrir þessu. Á steinolíu er nú þegar í raun og veru einokun. En alt annað er um kolin; um kolasöluna keppa þrjár þjóðir.

Hann (G. Sv.) sagði, að á kolaversluninni væri óþarflega mikill gróði. Það er ekki nýtt, að þessu sje kastað fram. En það er ekki nóg; einhverja sönnun verður að færa fyrir því. Auðvitað er nokkur gróði af henni, en það þarf engan að hneyksla, ef hann fer ekki fram úr gróða á annari verslunarvöru.

Hann(GS.) kannaðist við, að málið hafi ekki verið rætt til muna. Jeg benti á, að svona stórmál yrði að ræða í blöðum og á þingmálafundum, áður en stjórninni væri beint skipað að bera það fram. Slíkt stórmál sem þetta er ekki enn nægilega undirbúið, því að allar framkvæmdir í því verður að byggja á alþjóðarvilja.

Hann (G. Sv.) lagði lítið upp úr áskoruninni um að fella frv., þótt fáir hafi skrifað undir. En jeg verð að segja, að þegar þeir, sem mest nota vöruna. skrifi undir slíkt skjal, þá er það af því, að þeir hafa enga von um, að kolin verði ódýrari með þessum hætti. En það er ekki heppilegur grundvöllur til að byggja einokun á, ef hún verður framleiðslunni til hnekkis.

Jeg læt mjer liggja í ljettu rúmi, þótt frsm. (G. Sv.) líti smáum augum á, að landsstjórnin færi að samkeppa við kolakaupmenn. Það er ástæðulaust að kalla hana kramara fyrir það, því að í því skyni myndi þetta gert, að tryggja landsmönnum ódýrari vöru en ella. Fyrir það ætti landsstjórnin ekki skilið niðrandi nafn. Að öðru leyti læt jeg ræðu mína áðan nægja, og skal ekki þrátta meir um þetta mál.