31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (3126)

89. mál, forstaða verslunar landssjóðs

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þegar bjargráðanefnd samdi tillögu þessa, hafði hún ekki fengið upplýsingar um hið nýja fyrirkomulag á landssjóðsversluninni, sem komið hefir verið á síðan þing byrjaði, eða rjett nýlega. Þegar við svo fengum fregnir af því, fengum við tillöguna tekna út af dagskrá, til þess að geta kynt okkur þetta nýja fyrirkomulag, og tekið tillöguna aftur, ef okkur fyndist ástæðulaust að halda henni fram, eftir að þessar nýju upplýsingar væru fengnar. Eftir nokkrar umræður í nefndinni komst á samkomulag um það að taka tillöguna inn á dagskrá aftur, til þess að deildinni gæfist líka kostur á að heyra skýrslu landsstjórnarinnar um þetta efni. Það fer þá eftir því, hvort skýrslan þykir fullnægjandi, hvort ástæða virðist til að halda tillögunni fram eða ekki. Jeg leyfi mjer að leggja til, að tillagan fái að komast til síðari umræðu, til þess að hægt verði að taka hana þá aftur, ef deildin gerir sig ánægða með skýringar stjórnarinnar. Jeg býst við, að hæstv. landsstjórn sje að miklu leyti sammála nefndinni. Jeg þykist sjá það á skýrslu hennar. En jeg vænti þess, að hún hafi ekkert á móti því að lýsa fyrir deildinni afstöðu sinni til þessa máls.