02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

89. mál, forstaða verslunar landssjóðs

Pjetur Jónsson:

Við fyrri umr. þessarar till. var skýrt frá tilgangi hennar, svo að jeg þarf þar engu við að bæta, enda er greinilega gerð grein fyrir henni í athugasemd aftan við till.

Það er að eins eitt, sem jeg vil taka fram, sem sje að nefndin hefir nú kynt sjer það, sem stjórnin hefir gert í þessu máli, og fær nefndin ekki betur sjeð en að málinu hafi þokað í þá átt, sem hún ætlast til. Að vísu er nefndinni það eigi ljóst, hvort skrifstofu verslunarmálanna sje ætlað að hafa á hendi ráðstafanir á skipum þeim, sem stjórnin hefir keypt og leigt, en nefndinni virðist, sem allur rekstur skipanna eigi að hverfa undir þessa skrifstofu, þótt afgreiðslan að einhverju leyti sje falin fjelögum, t. d. Eimskipafjelagi Íslands og Sameinaða gufuskipafjelaginu.

Nú í trausti þess, að stjórnin hefir þokað málinu svo áfram, og að hún muni halda því áfram, þá leyfir nefndin sjer að leggja til að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Þar sem stjórnin hefir samkvæmt skýrslu sinni stigið drjúgt spor í áttina til fullnægju þess, er fram á er farið í till. á þgskj. 123, og í trausti þess, að stjórnin þoki verslunarmálinu í það horf, sem í till. greinir, eftir föngum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.