10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í C-deild Alþingistíðinda. (3134)

109. mál, kjördæmaskipun

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg kem með þessa tillögu af því, að eins og allir vita er nú kjördæmaskiftingin hjer á landi orðin svo úrelt, að ekki er lengur við unandi. Fólkstalan í hinum einstöku kjördæmum er nú svo misjöfn, að slíkt er með öllu óþolandi lengur. Jeg vildi þó ekki ganga lengra en svo, að fela stjórninni þetta mál til íhugunar, og geri jeg það í þeim tilgangi, að málið verði sem best undirbúið.

Samkvæmt Hagtíðindunum er í Reykjavík nú nokkuð á 15. þús. íbúar. Þeir hafa nú tvo þingmenn. Á Seyðisfirði eru rúmir 9 hundruð íbúar; þeir hafa einn þingmann. Annars geta menn sjeð á Hagtíðindunum, hve herfilega ranglát kjördæmaskipunin er, eftir fólksfjölda.

Jeg ætla ekki að bera saman muninn á hinum einstöku kjördæmum og Reykjavík, en jeg ætla að styðja tillögu mína, sem einkum er miðuð við Reykjavík, með því að benda á, hve margar stjettir eru nú hjer í bænum, og hve ólíklegt er, að þær geti haft sömu fulltrúa.

Helstu stjettirnar eru hjer auðvitað verkamenn og svo sjómenn, en svo eru hjer einnig margar aðrar stjettir, t. d. útgerðarmenn, og ýmsar stjettir af iðnaðarmönnum, sem hjer skifta hundruðum, og sama máli er að gegna með verslunarmannastjettina. Ef vel ætti að vera, þá þyrftu þingmenn þessa bæjar að þekkja til atvinnugreina þessara stjetta og þarfa þeirra. Enn má geta þess, að hjer er mikið af embættismönnum, og auk þess bændur, sem hjer eru ekki allfáir. Hverjum getur nú dottið í hug, að einir tveir menn geti þekt til þarfa allra þessara stjetta?

Enn vil jeg benda á eitt atriði, sem styður mjög mál mitt, og það er það, hve mikið þessi bær leggur af mörkum til landsins þarfa. — Jeg hefi athugað 14 tegundir skatta af öllu landinu. Þeir nema samtals ll/2 milj. kr.; af þeim hafa verið innheimtir í Reykjavík einni 3/4 milj.kr., eða með öðrum orðum nærri helmingur. Það ætti því ekki að vera nein goðgá, þótt Reykjavík hefði eitthvað meira að segja um löggjöf landsins en hún hefir nú. Hitt dettur mjer ekki í hug að fara fram á, vegna þess, að jeg veit, að það fæst ekki heldur, að Reykjavík fái nú eins marga þingmenn og henni ber, saman borið við fólksfjöldann. Auk þeirra skatta, er jeg nefndi áðan, mun hjer í Reykjavík einni koma inn meiri hlutinn af öllum póst- og símatekjum á landinu, og ekki minkar við það fúlgan, sem Reykjavík leggur af mörkum til þarfa landsins. Jeg get ekki, með mínum besta vilja, sjeð neitt, sem mæli á móti því, að Reykjavík fái eins marga þingmenn eins og henni að rjettu lagi ber. Jeg vona, að hv. deild óttist ekki svo mjög áhrif Reykjavíkur, að þeir lofi ekki þessari tillögu að ganga í gegn.