02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

200. mál, hagtæring og meðferð matvæla

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg stend að eins upp til þess að þakka hv. þingmönnum undirtektir sínar. Þetta er auðvitað ekkert stórmál, heldur að eins lítill angi af því almenna, að rjett sje að njóta ráða þeirra, er vita betur og kunna. Hvort menn vilja brjóta þennan anga eða hlynna að honum, læt jeg mjer liggja í ljettu rúmi, því að menn eru því vanir að traðka á því, sem stærra er. Sjerstaklega vil jeg þakka hv. þm. Borgf. (P. O.) hans góðu meðmæli. Öll ræða hans var eintóm tilmæli til deildarinnar að samþ. till., og vona jeg, að hann greiði till. atkvæði, til þess að fylgja sannfæringu sinni.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði aðallega um eitt orð. Eins og hann veit er jeg ekki vanur að hlaupa með málskrípi. Í þessu atriði stendur svo á, að jeg veit, en hann ekki.

Heldur fanst mjer það einkennilegt, er hann dró þá ályktun af orðum mínum, að kvenfólk væri ekki til á Íslandi, nema á einstöku heimilum Vona jeg, að hann neyti ekki oft slíkra ályktana í starfi sínu. Jeg ætlaði, að nefndin ætti að vera íslenskum húsmæðrum til ráðuneytis. Karlmenn ættu auðvitað líka að geta lært af starfi þessarar nefndar og rannsóknum. Og svo segir mjer hugur um, að mörg húsmóðirin mundi þakka fyrir að hafa til ráðuneytis nefnd kvenna, ásamt sjerfróðum efnafræðingi, er rannsakað gæti ýmsa þá hluti, er að matgerð lúta. Um þetta þarf ekki að ræða. En þetta var aðalatriðið í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Einkum bar þó á því í ræðunni með fyrirsögninni „Jo galere, jo bedre“. Ræðumaður (Sv. Ó.) gaf ræðunni sjálfur þessa yfirskrift, og var ekki hægt að velja betur. Ræðan var algerlega í samræmi við yfirskriftina.