07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

185. mál, hagnýting á íslenskum mó og kolum

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Á þgskj. 813 má sjá það, að bjargráðanefnd Nd. hefir komið sjer saman um að flytja þessa till., og er þar í greinargerðinni nákvæmlega skýrt frá því, hvað um er að vjela. Aðalefni þeirrar greinargerðar er tekið úr fyrirlestri, sem Thaulow, forgöngumaður þessa máls í Noregi, hefir haldið þar. Er þetta mál nú mikið áhugamál í Noregi, ekki eingöngu vegna styrjaldarinnar, sem valdið hefir ákaflegri verðhækkun á eldsneyti, heldur og vegna síðari tíma, svo að landið hafi úr eigin skauti alt í æðakerfi viðskiftanna. Þetta getur orðið svo merkt mál í framtíðinni, að nefndinni þykir vert að láta stjórnina íhuga það; lengra getur nefndin ekki búist við að stjórnin geti gengið en að athuga framfarir, sem orðnar eru í kolmóstekju í Svíaríki, en þar hefir þeim mjög fleygt fram á síðustu tímum, sem sjá má á bls. 3 í fyrnefndri greinargerð (sjá A, bls. 1243). Mundi þá haganlegast, að stjórnin sendi mann til þess að sjá þessar stofnanir og starfrækslu þeirra. Þessi Thaulow, sem fyr nefndi jeg, fór einmitt í slíka sendiför fyrir norsku stjórnina, með erindisbrjefi frá henni, og var honum vel tekið og leyft að kynna sjer þetta. Nú er því á kominn fullur áhugi í Noregi að hrinda þessu máli fram sem fyrst.

Það er nú vitaður hlutur, að hjer á landi er gnægð til af mó, og mundi það því hafa mikinn sparnað í för með sjer, ef menn gætu hagnýtt sjer þetta eldsneyti betur, en ósvinna væri að setja upp slíkar stofnanir, nema sjeð væri, hvernig þeim væri fyrir komið annarsstaðar í heiminum. Fyrir því þótti rjett að heimila stjórninni fjárveitingu til þess að senda mann utan í þessum erindagerðum, en þar með þá einnig að athuga nákvæmlega töflugerð Þjóðverja úr mókolum, sem mjög hefir aukist hin síðari ár. Hugði nefndin, að stjórninni þætti betra að fá heimild fyrir fjárveitingu í þessu skyni heldur en að taka það upp hjá sjálfri sjer. Býst jeg því við, að stjórnin taki till. vel.